Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:30:51 (712)

2002-10-17 16:30:51# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:30]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni og jafnframt Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir þeirra mikla og góða innlegg í þessa umræðu. Jafnframt vil ég, herra forseti, vekja athygli á því sem er heldur ekkert nýtt, þ.e. að í umræðum um þetta mikilvæga mál, þetta stóra og mikla byggðamál, taka aðeins þátt fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi. Við þessa umræðu vantar algjörlega fulltrúa Framsfl. og Sjálfstfl.

Á þessu vildi ég vekja athygli. Þetta er afar athyglisvert og nauðsynlegt að komi fram. Það er sama hvort um er að ræða landsbyggðarþingmenn eða höfuðborgarþingmenn þessara flokka, ég held að þeir þingmenn þessara flokka sem vilja kenna sig við landsbyggð og tala á tyllidögum eða sunnudögum um vanda landsbyggðar og að það þurfi að jafna lífskjörin í landinu, ættu að skammast sín fyrir fjarveru sína við umræður um þetta mikilvæga mál sem hér er verið að ræða.

Það var nú ekki þetta, herra forseti, sem ég vildi nefna í tengslum við ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar sem var mjög góð eins og ég sagði. Hann nefndi flugið og þá samkeppni sem átti sér þar stað og lækkaði mjög fargjöldin. Við höfum trú á því að samkeppnin sé til góðs og hún var það þarna. En hún var drepin. Hvers vegna var hún drepin? Jú, það var vegna þess að markaðsráðandi aðili lækkaði fluggjöld sín á sama tíma og gerði þar með rekstrarskilyrði hins aðilans vonlaus um langan tíma. Í velferðarþjóðfélögum þar sem samkeppnismál duga hefði þetta verið bannað.

Herra forseti. Ég vek athygli á nokkru sem e.t.v. er bara helber tilviljun, kannski skemmtileg tilviljun. Í gær bárust okkur fréttir af nýju flugfélagi sem ætlar að fljúga til Kaupmannahafnar og London og bjóða lægri fargjöld. Og hvað gerist núna? Stóri bróðir, Flugleiðir, býður þá sérstök vildarkjör á þessari flugleið. Af hverju gátu Flugleiðir ekki boðið okkur Íslendingum þessi lágu fargjöld fyrir hálfu eða einu ári síðan?