Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:33:10 (713)

2002-10-17 16:33:10# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:33]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller. En svona eru bara leikreglurnar sem við erum að súpa seyðið af og tala um sem vandamál á hinum ýmsu sviðum. Það var alveg fyrirséð. Ég vann nú í þessum geira á þeim tímapunkti þegar hin harða samkeppni hófst. Að bestu manna yfirsýn var alveg vonlaust að lækka miðaverð á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur niður fyrir svona 8.500--9.000 kr. En þá var verið að bjóða miðann á 5.500 kr. Þetta var skammgóður vermir, en ekki mátti tala um það á þeim tíma.

Auðvitað erum við að upplifa það að einn aðilinn eða sterkari aðilinn vinnur. Síðan verður fákeppni og þegar einokun ríkir geta menn nánast skammtað sér það sem þeir vilja.

Við erum að súpa seyðið af nákvæmlega sama fyrirkomulagi hvað varðar flutningana. Við hv. þm. vitum báðir að menn voru látnir selja flutningsfyrirtækin sín sem voru starfrækt víða um land. Sum þessara fyrirtækja þjónuðu kannski bara einum bæ upp á 1.500 manns. Þessum mönnum var gert með góðu eða illa að selja fyrirtæki sín inn í stóra púkkið. Hver er svo afleiðingin? Hún er gríðarleg hækkun á þessum gjöldum þegar fákeppni er komin á. Hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn sýndu ekki neina tilburði til þess að stjórna þróuninni, en henni átti að vera fullljóst til hvers ráðstafanir hennar varðandi frjálsræði og samkeppnismál mundu leiða. Þetta vita allir sem vilja horfa á þessi mál.