Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:35:09 (714)

2002-10-17 16:35:09# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski þarf ekki að orðlengja þetta. Hv. þm. nefndi hér áðan að við þyrftum að jafna leikinn í þjóðfélaginu. Um það erum við alveg hjartanlega sammála. Við erum sammála um allt í þessu máli. Við höfðum að vísu skiptar skoðanir á ríkisrekstri á strandsiglingum.

En ég vil taka eitt dæmi í viðbót. Vegna þess að við erum að tala um að jafna þurfi leikinn í þjóðfélaginu þá þarf ríkisvaldið kannski að beita opinberum styrkjum í þágu þess að halda uppi samgöngum til tiltekinna staða. Ég nefni eitt dæmi um þetta, þ.e. flug til ákveðinna byggðarlaga úti á landi sem ég fullyrði að flugfélögin mundu ekki sinna í dag nema vegna þess að farið var út í allsherjarútboð sem flugfyrirtækin á Íslandi gátu tekið þátt í. Hvort sem við erum að tala um flug til Hafnar í Hornafirði, Siglufjarðar, Vopnafjarðar eða Þórshafnar þá er það styrkt. Þannig á að taka þátt í að jafna leikinn. Við getum rétt ímyndað okkur ef þetta væri öðruvísi. Við þekkjum t.d. dýrustu fargjöldin, þ.e. Reykjavík/Vopnafjörður, sem eru náttúrlega þannig verðlögð að segja má að þau verðleggist eiginlega út af kortinu. En þetta er gott dæmi um hvernig hægt er að beita ríkisvaldinu til að halda uppi ákveðnu samgöngumunstri sem er nauðsynlegt. Það á að gera þetta á þennan hátt í staðinn fyrir að vera með eigin rekstur.

Herra forseti. Mér datt rétt í hug í lokin hvort hægt sé að fara einhverjar svona leiðir. Það er hægt að nefna ótalmargar leiðir í þessu sambandi, t.d. hvað hægt sé að gera til þess að lækka flutningskostnað og lækka vöruverð á landsbyggðinni, svo maður tali nú ekki um það sem brýnast er, samkeppnisaðstöðu atvinnurekstrar á höfuðborgarsvæðinu gagnvart landsbyggðinni.

Ég ætla spyrja einnar spurningar í lokin: Halda menn að kjötiðnaðarfyrirtæki í þeim ágæta bæ Akureyri sitji við sama borð og kjötiðnaðarfyrirtæki í Reykjavík við að koma vörum sínum á markað á Stór-Reykjavíkursvæðinu? Nei, segi ég. Ég veit til þess að kjötiðnaðarfyrirtæki norðan lands þurfa sjálf að borga flutningskostnaðinn til höfuðborgarsvæðisins og hafa þar með minna út úr framleiðsluvörunni.