Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 13:48:28 (722)

2002-10-29 13:48:28# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það fer afskaplega vel á því að það skuli vera hæstv. landbrh. sem kemur hér og mælir fyrir vernd túnfiska.

Það er nauðsynlegt að það sé alveg ljóst hver staða okkar er gagnvart hinum ýmsu alþjóðlegu stofnunum á sviði sjávarútvegsmála, t.d. hafa verið áhöld um veru okkar í Alþjóðahvalveiðiráðinu undir forustu núv. hæstv. sjútvrh. Hæstv. landbrh. mælir fyrir því að Alþingi samþykki að við gerumst aðilar að Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu vegna þess að það sé svo mikilvægt að við komumst í að vera viðstödd þegar menn véla um úthlutun á túnfiski. Það á að gerast á ársfundi ráðsins.

Ég hegg eftir því, herra forseti, að miðað við þær upplýsingar sem koma fram í till. til þál. hófst ársfundur ráðsins í gær og með leyfi að spyrja, herra forseti: Getur hæstv. landbrh. skýrt hvernig stendur á því að ekki er fyrir löngu búið að leggja fram þessa till. til þál.? Er það þá þannig að við verðum að samþykkja þetta í dag til þess að hæstv. sjútvrh. geti farið með fullgilt atkvæði Íslendinga á ársfundi Alþjóðatúnfiskveiðiráðsins?

Þetta er ákaflega undarlegt, herra forseti, ekki síst vegna þess að við Íslendingar urðum að athlægi á alþjóðavísu sökum þess að hæstv. sjútvrh. var ekki viss um það hvort Íslendingar væru fullgildir aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Og mér sýnist samkvæmt þessu að viðlíka deilur hljóti að vera í uppsiglingu um það hvort hæstv. ráðherra er þá staddur á ársfundi ráðsins eða ekki og hvort hann er þar fulltrúi Íslands eða ekki og hvort hann hefur atkvæði þar eða ekki.