Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:00:17 (728)

2002-10-29 14:00:17# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um aðild að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi.

Ég vil byrja á því að taka undir með þeim þingmönnum sem gagnrýna hversu seint þetta mál er komið fram og að hér skuli þurfa að afgreiða það með miklu hraði. Ég bendi á að fyrstu vikur þingsins var næstum einvörðungu fjallað um þingmannamál vegna þess að stjórnarmál voru ekki fram komin. Því er algerlega óásættanlegt að við séum að fá þetta inn til afgreiðslu með hraði.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum þeirrar skoðunar að hér sé gott mál á ferðinni en hefðum viljað skoða það betur og gefa okkur meiri tíma fyrir það eins og öll önnur mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að það þjónar hagsmunum Íslendinga að veiðum úr þessum stofni sé stjórnað og það þjónar líka hagsmunum þeirra aðila við Miðjarðarhaf sem hafa lifað á túnfiski að stjórn veiðanna fari fram á þann hátt að fiskurinn geti kannski í náinni framtíð sótt í ríkari mæli inn á Miðjarðarhaf. Það skýrir náttúrlega áhuga þjóða eins og Tyrkja og Ítala á málinu. En yfir höfuð er skynsamleg nýting og stjórn á veiðum úr þessum fiskstofni sjálfsagður hlutur og við munum ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál fái framgöngu í þinginu. Það verður skoðað í nefnd á eftir.

Að síðustu vil ég bara taka undir með þeim sem gagnrýna að mál komi inn með þessum hætti og séu afgreidd með hraði eins og hér er verið að gera. Þannig eigum við ekki að vinna. Þetta mál hefur eflaust átt langan aðdraganda í stjórnkerfinu og þingið hefur haft nægan tíma til að koma því á dagskrá og til umfjöllunar með eðlilegum hætti núna á haustþingi.