Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:13:23 (732)

2002-10-29 14:13:23# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Vegna þessara umræðna sem hafa farið hér fram um seinagang og að staðið hafi á skjölum frá sjútvrn. vil ég aðeins segja að túnfiskveiðar hafa verið stundaðar í tilraunaskyni við strendur Íslands á undanförnum árum og þá með samningi við Japani um að þeir sjái um veiðarnar. Síðan hafa íslensk skip gert tilraunir með þetta sama. Við sem þjóð höfum verið að reyna að afla okkur kvóta eða veiðiheimilda til þess að eiga erindi inn í Alþjóðatúnfiskveiðiráðið þannig að mark yrði tekið á okkur sem rétthöfum til kvótaúthlutunar. Það hefur því ekki verið talin ástæða til að ganga inn í þetta ráð fyrr en á síðustu stundu. Við getum sagt að menn hafi talið óheppilegt að ganga í þetta fyrr en þeir hefðu einhvern rétt.

Mér er sagt að það hafi ekki komið upp fyrr en bara nú fyrir skömmu að strandríki mundu öðlast einhvern rétt og að það ætti að taka upp á þessum sérstaka fundi túnfiskveiðiráðsins sem nú er hafinn. Það er ástæðan fyrir því hversu seint þessi skjöl koma fram. Það var ekki vitað fyrr en seint að það kæmi yfirleitt til álita að þetta mál væri til umræðu. Það er hin raunverulega skýring á bak við þetta en ekki einhver seinagangur eða handvömm eins og mér hefur fundist menn gefa í skyn í þessum virðulega þingsal.

Að sjálfsögðu er mjög mikilvægt fyrir okkur að öðlast einhvern rétt til túnfiskveiða. Við vitum að m.a. í Vestmannaeyjum hafa menn lagt heilmikið undir til að geta tekið þátt í þessu. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að auðvitað eigum við að reyna að styðja við bakið á þeim aðilum sem eru frumkvöðlar að þessu leyti og passa upp á að okkar réttur sé tryggður á alþjóðavettvangi sem annars staðar.