Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:30:54 (734)

2002-10-29 14:30:54# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til laga um breytingu á búnaðarlögum, á 16. gr. laganna sem fjallar um erfðanefnd og erfðalindir, eins og það heitir í frv. Ég gáði í íslenska orðabók hvort þetta orð væri til, erfðalind, en ég fann það ekki. Ég hef heyrt í sálmi orðið líknarlind og það er náttúrlega talað um lindir, lindina tæru, en orðið erfðalind gat ég ekki fundið. Þetta mun væntanlega vera þýðing á enska orðinu ,,resource`` sem er líka þýtt sem auðlind. Ég held að þetta mætti taka til umræðu í hv. landbn. þegar að því kemur hvort réttara sé að nota orðið erfðalind eða erfðaauðlind. Einnig má spyrja sig að því, herra forseti, að ef við segjum erfðalind, þá getur það líka gefið nefndinni annan tilgang og annað hlutverk heldur en ef um er að ræða erfðaauðlind, því að hugtakið erfðalind er miklu víðtækara.

Við getum t.d. hugsað okkur sauðfé. Það geta verið til ýmsir stofnar eða afbrigði. T.d. er talað um svokallað forustufé og fólk hefur haft áhyggjur af því að sá stofn væri að deyja út innan fjárstofnsins eða þau einkenni íslenska fjárstofnsins sem kalla má forustufé. Þá er það hlutverk m.a. nefndarinnar að gæta þess að slíkir eiginleikar sem til eru í íslensku sauðfé sem forustukyni týnist ekki og glatist ekki um allan aldur, eins og t.d. fór fyrir geirfuglinum. Það var fugl sem var hér við strendur landsins og var ekki fleygur og þess vegna var mjög auðveldlega hægt að veiða hann sem leiddi til þess að þeim fugli var útrýmt.

Segjum sem svo að enn væru til tveir, þrír, fjórir geirfuglar enn við strendur landsins, þá hefði erfðanefndin væntanlega fengið það hlutverk að varðveita gen eða eitthvað úr þeim fuglum sem gæti leitt til þess að stofninn mundi ekki glatast að eilífu eins og raunin hefur orðið á. Þetta vekur líka spurningarnar almennt um erfðaeiginleika íslenska lífríkisins og sérstöðu þess, eins og hæstv. landbrh. nefndi áðan þegar hann talaði m.a. um gróðurinn. Spurningar vakna í þessu sambandi hvort rétt sé að huga að því að útvíkka hlutverk nefndarinnar og breyta þá væntanlega stöðu hennar í það að gæta að og fylgjast með íslensku lífríki.

Hæstv. ráðherra talaði í ræðu sinni áðan um að nefndin ætti að fylgjast með stofnum, t.d. kúastofninum, sauðfjárstofninum og öðrum dýrum. Þetta kemur allt inn á nytjarnar og það sem tengist tekjum og hefur ákveðinn hagnað eða ábata í för með sér. Þá tengist þetta því sem ég talaði um áðan, herra forseti, að frekar ætti að nota auðlindarhugtakið heldur en lindarhugtakið.

Í sambandi við skipan nefndarinnar, og þegar ég tala svona vítt um þetta kemur mér í hug hvort rétt sé að að þessu máli komi ekki eingöngu þeir aðilar sem nefndir eru hérna heldur skarist þetta líka inn á svið siðfræðinnar --- til er vísindasiðanefnd eða eitthvað slíkt --- og sú spurning vaknar hvort þetta ætti að koma inn á svið heimspekinnar og siðfræðinnar, hvort einhver slíkur aðili ætti að koma að nefndinni og væri hann þá með annan vinkil í umræðunni um erfðalindirnar, um erfðanefndina. Ég fann ekki neina reglugerð um erfðanefnd í dag og spyr því hvernig erfðanefndin hefur verið að starfa.

Fljótt á litið er þetta mjög einfalt mál og ekki flókið og sjálfsagt að þetta verði samþykkt, ég held að þetta hljóti að fara í gegn. En ég spyr hæstv. landbrh.: Hvað má gera ráð fyrir miklum kostnaði í sambandi við þetta starf? Það hlýtur að fela í sér mjög miklar rannsóknir þegar við förum að rannsaka eiginleika, eins og ég nefndi áðan, herra forseti, sauðfjárstofnsins, kúastofnsins, ég tala nú ekki um hestana því þar á sér stað gífurlega mikil ræktun. Þegar menn eru að reyna að ná fram ákveðnum eiginleikum í dýrum, eins og í hestaræktuninni, hefur það e.t.v. í för með sér að aðrir eiginleikar týnast og glatast. Er t.d. hætta á því að skjóttir hestar verði ekki til vegna þess að menn mundu hafa frekar áhuga á að eiga bara rauða hesta? Ég spyr. Nefndin á þá að hafa það hlutverk að gæta þess að skjóttir hestar ræktist ekki út og hverfi alveg úr íslenska hestastofninum. Einnig vakna spurningar um genabanka eða hvort gæta eigi þess að ekki ræktist út úr stofninum ákveðnir eiginleikar.

Einnig má spyrja þess sama í sambandi við kýrnar þegar verið er að tala um gæði íslensku mjólkurinnar og þær rannsóknir sem hafa haft þau áhrif, herra forseti, að menn fara að beina sjónum sínum að því hvort verið geti að íslenska mjólkin sé svo góð að hún komi í veg fyrir sykursýki. Menn leiða líkur að því að minni sykursýki hér á landi stafi af því að íslenska mjólkin sé svona góð. Auðvitað eigum við að vernda alla þá góðu eiginleika sem við höfum í stofnum okkar.

En spurningin vaknar líka um þetta í sambandi við villt dýr, t.d. refinn. Hann er ekki talinn nytjaskepna en ég nefni hann sem dæmi, herra forseti, og minkinn og fleiri dýr. Eigum við að vera með erfðanefnd íslenska lífríkisins? Þetta eru spurningar sem vöknuðu hjá mér, herra forseti, fyrsta kastið í sambandi við frv. það sem hæstv. landbrh. leggur fram þar sem hlutverk erfðanefndar í landbúnaði er útvíkkað og beinist sú útvíkkun að því að gæta þess að góðir eiginleikar nytjaplantna týnist ekki eða glatist ekki og að sérkenni þeirra tapist ekki við ræktun eða kynbætur. Jafnframt vakna hugsanir um aðra þætti íslenska lífríkisins eins og fjalldrapa og margt annað. (Gripið fram í.) Fjallagrös, segir einn hv. þm. vinstri grænna. Ég tel þau vera nytjajurtir og að gefa eigi mikinn gaum að þeim jurtum eins og fjallagrösum, hvönninni og vallhumlinum og mörgu öðru sem hægt er að nota í náttúrulækningum og fólk leggur líka traust sitt á jurtir sem hafa mikla næringu fyrir líkamann.

Þar sem ég á sæti í landbn. mun ég hlakka til að taka þátt í að fjalla um málið því að þó að orð frv. séu ekki mörg, þá fela þau í sér gífurlega mikið efni og umhugsun um hluti sem lúta að náttúruvernd, íslenska lífríkinu yfirleitt og breytingum í því og hvert við erum að stefna með áhuga margra manna á að koma með kynbætur o.s.frv. inn í hina ýmsu búfjárstofna og einnig í sambandi við plönturnar og trén. En hver mun kostnaðurinn verða og hver á að greiða hann? Er gert ráð fyrir þessu og öllu slíku á fjárlögum? Það verður náttúrlega að fylgja með. Það er ekki nóg að setja einhverja nefnd á laggirnar ef hún getur ekki starfað vegna fjárskorts.