Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:50:57 (738)

2002-10-29 14:50:57# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum. Ég vil almennt segja, virðulegi forseti, að ég tel að innihald frv. sé allrar athygli vert en ég tel að það þurfi mikla umfjöllun í landbn. Ég kem þó aðallega hingað til að fagna því að hæstv. landbrh. virðist vera farinn að gera sér grein fyrir mikilvægi hluta í íslenskri náttúru sem hann hefur kannski síður gert sér grein fyrir á síðustu missirum. Og það er ákaflega mikils virði fyrir t.d. þær framtíðarhorfur í íslenskum iðnaði sem byggja á nýtingu flórunnar að menn yfir höfuð opni augun fyrir því að þetta eru verðmæti sem geta verið undirstaða mikillar velmegunar og velsældar í landinu.

Hæstv. landbrh. kom sérstaklega inn á hvönnina sem mögulegan aflgjafa til framleiðslu á vörum og efnum sem gætu nýst okkur í framtíðinni, og ég tel að með þessari áherslu á flóru landsins sé hæstv. landbrh. --- og það gleður mig --- í ríkari mæli að gera sér grein fyrir þeim möguleikum sem felast í því að byggja á landsins gæðum.

Það má nefna fleiri plöntur til sögunnar en ég læt aðra um að fjalla um dýrastofnana. Það er alveg ljóst að flóra Íslands, norðurheimskautsflóran, getur gefið grunn og verið uppspretta efna sem verða til mikilla hagsbóta í framtíðinni fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu. Við gerum okkur grein fyrir því núna, Íslendingar, að t.d. lyfjaiðnaðurinn og jafnvel snyrtivöruiðnaðurinn eru vaxtarbroddar íslensks iðnaðar og þá erum við ekki bara að tala um fyrir okkur sjálf heldur jafnframt til útflutnings. Það er því tímabært og ég vil ekki hallmæla frv. að svo stöddu. Ég tek það fram að ég tel að það þurfi að fara til umfjöllunar í hv. landbn. en það er mikið fagnaðarefni ef menn eru komnir svo langt að þeir telji að vernda þurfi lífríkið vegna þess að það sé okkur öllum til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið.

Ég tek svo undir varnaðarorð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þar sem hún varaði við því að við stefndum að því að kaupa okkur frí með ofuráherslu á erfðabanka. Ég þekki málið örlítið vegna þess að vinur minn og kollegi í Danmörku keypti danskan dráttarhest sem honum var falið að fóðra og eiga og reka sem genabanka en það var í sjálfu sér mjög sorgleg lausn því að hesturinn dó á sínum tíma. Auðvitað verður þetta að vera lífsstíll og undirbyggt á þann hátt að það nýtist þjóðinni sem best. Þess vegna tek ég undir þau varnaðarorð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að genabankar af ýmsu tagi mega aldrei vera settir upp á þann hátt að þeir verði fjarvistarsönnun frá því að taka á málunum á þann hátt sem vera skal, og jafnframt þær siðferðilegu forsendur sem hv. þm. Karl V. Matthíasson kom inn á enda er hann prestur að mennt.