Íslenskur ríkisborgararéttur

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 15:23:27 (747)

2002-10-29 15:23:27# 128. lþ. 15.9 fundur 242. mál: #A íslenskur ríkisborgararéttur# (tvöfaldur ríkisborgararéttur) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952.

Megintilgangur þess er að heimila íslenskum ríkisborgurum að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Skv. 7. gr. núgildandi laga missir sá íslensks ríkisfangs sem hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt umsókn sinni eða skýlausu samþykki, eða með því að ganga í opinbera þjónustu í öðru ríki. Það sama gildir um börn viðkomandi undir 18 ára aldri sem eru í hans forsjá sé hitt foreldrið erlendur ríkisborgari.

Rökin sem mæla með því að breyta þessu og heimila tvöfaldan ríkisborgararétt eru margvísleg. Stjórnvöld, þá sérstaklega sendiráð, hafa orðið vör við verulega óánægju íslenskra borgara með reglur núgildandi laga. Í sumum löndum þurfa menn að vera þarlendir ríkisborgarar til að njóta ýmissa réttinda. Er fólk oft og tíðum ósátt við að þurfa að afsala sér íslensku ríkisfangi í slíkum tilvikum.

Það ber að hafa í huga að íslenskt ríkisfang er flestum kært og táknrænt um tengsl við landið. Þetta á kannski ekki síst við um ungt fólk sem flust hefur með foreldrum sínum til annarra landa. Það á t.d. eftir að gera upp við sig hvar það ætlar að búa og starfa og er því tregt til að afsala sér íslenskum ríkisborgararétti en neyðist þó til þess í því skyni að njóta ýmissa réttinda þar sem það er búsett. Auk þess bitnar reglan um einfaldan ríkisborgararétt, ef svo má að orði komast, harðar á íslenskum ríkisborgurum sem fá erlent ríkisfang en erlendum ríkisborgurum sem fá íslenskt ríkisfang. Ekki hefur verið gengið hart eftir því að þeir sem fá íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn fái lausn frá fyrri ríkisborgararétti. Það helgast að miklu leyti af því að hér er ekki herskylda en eitt meginsjónarmiðið við að heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt er að koma í veg fyrir að maður geti gegnt herskyldu í tveimur ríkjum. Þykir það því réttlætismál að heimila Íslendingum að hafa tvöfaldan ríkisborgararétt enda er það leyfilegt í fjölmörgum löndum svo sem fram kemur í fylgiskjali með frv.

Þess má sérstaklega geta að í sænsku lögunum um ríkisborgararétt má nú finna víðtæka heimild til að hafa tvöfaldan ríkisborgararétt. Í Noregi og Finnlandi er hafin endurskoðun á ríkisborgararéttarlögunum og ríkisstjórn Finnlands hefur ákveðið að við samningu þess frumvarps skuli miða við að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði heimill.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.