Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 15:27:43 (748)

2002-10-29 15:27:43# 128. lþ. 15.10 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

Mál þetta hefur áður komið til umræðu á hv. Alþingi en hefur eingöngu farið í gegnum fyrri umr. og ekki hlotið náð í nefndum þingsins til að koma fyrir þingið aftur. Nú hagar hins vegar svo til, herra forseti, að hvorugur ráðherranna sem málið varðar, þ.e. hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh., er staddur á landinu. Því væri æskilegt að annar hvor þeirra ráðherra sem starfa fyrir viðkomandi hæstv. ráðherra gæti verið viðstaddur umræðuna. Það kann að vera að viðkomandi ráðherrar vilji annaðhvort blanda sér í umræðuna eða svara þeim spurningum sem gætu komið upp í umræðunni.

Herra forseti. Þessi þáltill. um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu er flutt af þingmönnum úr stjórnarandstöðuflokkunum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Jóhann Ársælsson.

[15:30]

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Frumvarpið verði lagt fram á þessu þingi og að því stefnt að lögin taki gildi 1. janúar 2004.``

Þessi lög þurfa auðvitað ákveðinn aðdraganda og það er ekki æskilegt að menn flýti sér um of við viðamikið verkefni eins og það að stefna hér að fjárhagslegum og rekstrarlegum aðskilnaði útgerðar annars vegar og fiskvinnslu hins vegar. En þetta er jú m.a. það sem aðrar þjóðir hafa tekið sér fyrir hendur á umliðnum árum, að aðskilja veiðar og vinnslu.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um það að hæstv. sjútvrh. er í útlöndum, eins og kunnugt er, og að staðgengill hæstv. sjútvrh., hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson, er ekki í þinghúsinu. Vill forseti bjóða hv. þingmanni að gera hlé á máli sínu og verður þá frekari umfjöllun um málið frestað og það tekið á dagskrá síðar.)

Herra forseti. Það er auðvitað vel boðið en þetta mál hefur verið á dagskrá áður og ég veit eiginlega ekki hvort ég hef geð í mér til að vænta þess að ráðherrar séu staddir hér eða bíða eftir því. Ég ætla að halda áfram að flytja mál mitt, herra forseti. Við hv. þingmenn verðum þá bara að una því að ráðherrar séu svo tímabundnir af öðrum störfum að þeir megi ekki vera að því að sinna því að líta hér við í hv. þingi. Það verður þá svo að vera, herra forseti.

(Forseti (ÁSJ): Eins og þingmanninum þóknast.)

Þá held ég áfram máli mínu. Ég var þar kominn að víkja að því að aðrar þjóðir, m.a. Færeyingar, sú þjóð sem er næst okkur hér í suðaustri, hafa farið þá leið á undanförnum árum að aðskilja veiðar og vinnslu. Þeir hafa reyndar gengið mun lengra í framsetningu sinni en við hv. flutningsmenn leggjum til í þáltill. því að Færeyingar hafa einnig skyldað útgerðir allra fiskiskipa í Færeyjum til að landa ákveðnu hlutfalli af afla sínum á fiskmörkuðum. Mig minnir að það hlutfall sé 30%. Hverju fiskiskipi er þá skylt að landa inn á fiskmarkaðinn 30% til sölu þar til þess að tryggja þar ákveðið framboð og vonandi þá líka til þess að stuðla að því sem við erum að leita hér að með framsetningunni á þessari tillögu, að auka verðmæti aflans, og reynslan í Færeyjum er einmitt að það hefur gerst. Verðmætisaukning hefur orðið mikil við þessa ákvörðun þeirra að framkvæma það sem við erum hér m.a. að leggja til.

Þó að við göngum ekki það langt í þessari tillögu að skylda aflann inn á fiskmarkað mundi það vafalaust af eðli máls leiða til þess, ef fram færi fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu, að þetta væru tvö aðskilin fyrirtæki, að það mundi smátt og smátt ýta undir það að meira magn af fiski yrði selt á fiskmörkuðum. Það tel ég að sé mjög jákvæð þróun fyrir íslenskt efnahagslíf og verðmætisauka af sjávarfangi hér á landi, að ég tali nú ekki um hvað þetta mundi að mínu viti lagfæra þau viðskipti með aflann sem eiga sér stað og breyta því viðskiptamunstri sem viðgengist hefur á undanförnum árum þegar inn í er blandað því sem íslenskir útgerðarmenn hafa einir, þ.e. kvótaréttinn, leigu kvótaréttarins og jafnvel sölu. Þar erum við að vísu í allt öðrum bás heldur en nágrannar okkar Færeyingar sem voru settir í slíkt framseljanlegt kvótakerfi fyrir nokkrum árum en ákváðu af ýmsum ástæðum, m.a. vegna brottkasts og annarra ástæðna sem þeir töldu fylgja slíkri útfærslu, að hverfa frá aflaúthlutunarkerfi og taka upp sóknarstýrðar fiskveiðar sem hafa gefist mjög vel við stjórnina í Færeyjum og á margan hátt tryggt endurreisn eyjanna eftir að eyjarskeggjar lentu í miklum erfiðleikum fyrir nokkrum árum. Og mér er sagt, herra forseti, að í Færeyjum vilji engir hverfa til baka. Að vísu hafa heyrst raddir útgerðarmanna um að þeir vilji losna undan 30% söluskyldunni inn á markaðina en að öðru leyti séu þeir sáttir við verðtenginguna, að verðið myndist á fiskmörkuðum og það verði það verð sem gangi þegar fiskur skiptir um eigendur frá útgerð til vinnslu.

Við segjum, herra forseti, í 2. mgr. þessarar tillögu að ef svona nefnd verður skipuð til þess að vinna upp þessi lagaákvæði sem við þurfum að vanda vel vinnu á verði lögunum ætlað að skapa skilyrði fyrir eðlilega verðmyndun á öllum óunnum fiski á markaði, heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.

Ég held því fram, herra forseti, að samkeppnisskilyrði séu ekki eðlileg í þessari grein. Það er til nokkur fjöldi fyrirtækja hér á landi án útgerðar, og þau eru m.a.s. í sérstökum samtökum, Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar, sem kaupa nánast allan sinn afla af útgerðum sem þeir eiga lítinn eða engan hluta að eða þá á fiskmörkuðum. Og það verður að segjast alveg eins og er að á undanförnum árum hafa einmitt þessi minni fiskvinnslufyrirtæki, fiskvinnsluaðilar innan þessara samtaka, verið þau sem hafa rutt brautina til nýsköpunar varðandi það að vinna hér ferskan fisk til útflutnings, m.a. í flugi, og ýmsar fisktegundir og menn hafa sérhæft sig svolítið í því, hvert fyrirtæki fyrir sig, þótt lítil séu, og náð miklum árangri í því að auka verðmæti afurðanna.

En það verður að segjast alveg eins og er að þeir aðilar sem reka fiskvinnslu án útgerðar hafa ekki það vopn sem hinir hafa sem jafnframt hafa úthlutaðan kvóta og reka útgerð, að geta notað m.a. aflaheimildirnar til að stýra til sín viðskiptum. Það er m.a. það sem gert er hér á landi, úthlutun aflakvótanna er notuð í beinum viðskiptum milli manna. Örugglega allir Íslendingar sem á annað borð fylgjast með fréttum hafa heyrt setninguna ,,tonn á móti tonni`` og hvernig þau viðskipti fara fram, þegar sá aðilinn sem fiskvinnslu stundar og er jafnframt með útgerð hefur yfir aflakvóta að ráða og býður öðrum útgerðarmanni sem hefur takmarkaðan aflakvóta að koma í viðskipti til sín, hann fái lægra fiskverð en á móti fái hann aflakvóta frá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum. Þannig eru menn að stýra til sín hráefni og auðvitað keppa þeir aðilar sem þannig háttar um ekki á jafnréttisgrundvelli við þá sem eigi hafa úthlutaðar aflaheimildir.

Þetta er auðvitað angi af fiskveiðistjórnarkerfi okkar, því miður, sem við skyldum aldrei hafa tekið hér upp, frjálsa, framseljanlega sölu og leigu á aflakvótum, því að sá réttur þurfti aldrei að vera hjá útgerðinni til þess að hægt væri að stunda hér eðlilegar og arðbærar fiskveiðar. Útgerðarmennirnir þurftu eingöngu að hafa þá vissu að þeir mættu gera út skip sín til fiskveiða, hvort sem það var í aflakvótakerfi eða einhverju öðru kerfi, en þeir þurftu aldrei á leigu- og söluréttinum á aflakvótanum að halda til þess að halda áfram eðlilegu og sjálfsögðu útgerðarmynstri.

Og það er nákvæmlega þarna sem skilur á milli hagsmuna útgerðarmannanna og hagsmuna fólksins í landinu, það eru útgerðarmennirnir sem hafa þennan rétt til leigu og sölu á aflaheimildum og geta nýtt hann með ýmsum hætti, m.a. í viðskiptum eins og ég hef verið að benda á og er einnig dregið fram í greinargerð en hafa síðan ákvörðunarrétt um það hvenær þeir vilja selja þessi réttindi frá fyrirtæki sínu og þá jafnvel burt úr byggðunum, sem hefur auðvitað sums staðar haft alveg skelfilegar afleiðingar á afkomu fólks og öryggi þess til að búa í hinum dreifðu sjávarbyggðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mikið nánar ofan í greinargerðina sem fylgir þessari till. til þál., hún er efnislega um þau atriði sem ég hef hér dregið fram. Í henni má auðveldlega lesa í hvers konar fari viðskiptin geta verið. Þau geta valdið fiskskorti á mörkuðum, útgerðirnar sækjast í auknum mæli eftir beinum viðskiptum vegna þess að þá fá útgerðarmennirnir sem litlar aflaheimildir hafa eða jafnvel engar til sín aflaheimildir og það veldur því oftast nær að fiskverðið sem viðkomandi aðilar fá er miklu lægra en eðlilegt getur talist. Og þrátt fyrir að e.t.v. hafi eitthvað lagast í verðlagningu á fiski í beinum viðskiptum milli útgerðaraðila sem jafnframt eiga fiskvinnslufyrirtæki í kjölfar kjarasamninga sjómanna er það samt svo að það munar miklu, herra forseti. Og ég hygg að meðalverðið út úr samningum sem Verðlagsstofa viðurkennir sé núna í kringum 105--110 kr. á þorski þegar markaðsverðið liggur á bilinu 150 og upp í 250 kr., og jafnvel undirmálsþorskurinn selst dag eftir dag á 130--140 kr. kílóið.

Herra forseti. Nú er tíma mínum lokið og ég mun því halda áfram í seinni ræðu minni að víkja að ýmsum röksemdum sem nýlega hafa komið fram, m.a. í skýrslu sem sjútvrh. var afhent um það hvernig megi stuðla hér að auknum verðmætum.