Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 13:35:47 (756)

2002-10-30 13:35:47# 128. lþ. 17.91 fundur 195#B heilsugæslulæknar á Suðurnesjum# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum ætla sér að ganga út af heilsugæslustöðvunum eftir daginn á morgun. Einn dagur er til stefnu til að leysa læknismál 16 þúsund manna svæðis á Suðurnesjum. Eftir því sem ég best veit verður að vísa fólki á því svæði sem þarf að leita til heilsugæslulæknis til höfuðborgarsvæðisins eftir morgundaginn, með öllum þeim vandamálum sem því geta fylgt.

Allir vita, herra forseti, að slíkt ástand getur ekki og má ekki koma upp. Ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur lagt sig fram um að vinna að lausn þessa máls. Ég vildi því, herra forseti, fá að beina til hæstv. ráðherra spurningu um hvaða aðgerðir séu í gangi til að leysa þessa deilu. Þurfa Suðurnesjamenn að horfa upp á að svæðið verði læknislaust eftir daginn á morgun?

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh.: Er í skoðun að læknar fresti aðgerðum sínum eða verða aðrir læknar ráðnir í staðinn fyrir þá sem sagt hafa upp störfum?