Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 13:41:33 (760)

2002-10-30 13:41:33# 128. lþ. 17.91 fundur 195#B heilsugæslulæknar á Suðurnesjum# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir undrun minni, herra forseti, á því sem er að gerast hér. Á fundi með formönnum þingflokka í gær, sem ég gat því miður ekki setið, skilst mér að orðið hafi samkomulag um að umrædd utandagskrárumræða færi fram á morgun. Þar var öllum ljóst, herra forseti, hvert var tilefni þeirrar umræðu. Á þeim fundi situr fyrir hönd Sjálfstfl. hv. þm. Ásta Möller, skilst mér, sem staðgengill þingflokksformanns Sjálfstfl. Það hlýtur að teljast algert einsdæmi að í slíku tilviki skuli þingmaður úr þeim ágæta flokki hefja umræðu um störf þingsins varðandi sama efni. Sitjandi þingflokksformaður ver það.

Herra forseti. Samkomulag sem gert er á fundum með formönnum þingflokka er að sjálfsögðu samkomulag. Auðvitað felst í því að menn skjóti sér ekki fram við fyrsta tækifæri og taki lungann úr þeirri utandagskrárumræðu sem fram á að fara.

Ég vil mótmæla þessu, herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. forseti heimilaði ekki að efnisleg umræða færi fram um þetta vegna þess samkomulags sem liggur fyrir og var afgreitt formlega á fundum með formönnum þingflokka. Ella er það til lítils, herra forseti, að við formenn þingflokka setjumst niður til að reyna að skipuleggja þá umræðu sem fer fram í þinginu daginn út og daginn inn. Auðvitað verður það að halda, herra forseti. Ég hefði talið að það væri hlutverk hæstv. forseta að sjá til að svo geti orðið, að samkomulag sem gert er á slíkum fundi standi.