Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 13:45:23 (762)

2002-10-30 13:45:23# 128. lþ. 17.91 fundur 195#B heilsugæslulæknar á Suðurnesjum# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka örlítinn þátt í þessum umræðum um störf þingsins. Ég held að þær kristalli visst vandamál sem upp er komið. Ég hef svarað fyrir mál hér undir liðnum um störf þingsins og þingmenn hafa verið það tillitssamir, ef svo má segja, við mig að láta mig vita um það fyrir fram. Ég stend þó í þeirri meiningu að það sé skylda mín sem ráðherra að svara og að ég eigi engan kost í því ef ég er spurður, og jafnvel þó að ég hafi ekki verið látinn vita um það áður.

Þetta hefur þróast sem aukautandagskrárumræður og það er spurning hvort forusta þingsins þyrfti ekki að skoða hvernig þessum málum er fyrir komið. Hálftímautandagskrárumræða --- ég tek alveg undir með hv. 3. þm. Vestf. að það er allra hluta vegna best ef hún færi fram sem fyrst eftir að beðið er um hana. Þá kæmi hún í rauninni í staðinn fyrir þær utandagskrárumræður sem eru orðnar hér á hverjum þingdegi. Þær gætu alveg eins verið hálftímautandagskrárumræður sem er beðið um með venjulegum hætti.

En ég endurtek varðandi þetta afmarkaða mál að ég vil verða við því að taka þá almenna umræðu um það á morgun eins og ég ætlaði að gera. Ég vil samt skýra frá þeirri stöðu sem málið er í í dag, ég er með það í viðræðu með formlegum hætti þessara þriggja aðila sem ég nefndi áðan og þá við þær heilsugæslustöðvar sem þarna er um að ræða.