Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:08:48 (766)

2002-10-30 14:08:48# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. spyr um fjölgun hjúkrunarrýma í Reykjavík, og hvernig ráðherra hyggist standa að endurbótum og fjölgun hjúkrunarrýma, samanber viljayfirlýsingu frá því í maí, hver sé áætluð aukning hjúkrunarrýma á næsta ári í samræmi við yfirlýsinguna og loks hve langur biðlisti sé eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík og hver sé áætluð þörf næstu fjögur ár.

Í febrúar á þessu ári stóð heilbr.- og trmrn. fyrir samantekt sem gefin var út í skýrslunni ,,Áætlun um byggingu öldrunarþjónustu árin 2002--2007`` þar sem fjallað er um uppbyggingu öldrunarþjónustu á landsvísu á þessu tímabili. Á sama tíma er gert ráð fyrir að dagvistarrýmum verði fjölgað um 135 á landinu öllu en ráðuneytið leggur áherslu á að öldruðum verði kleift að búa eins lengi heima og kostur er líkt og kveðið er á um í lögum. Samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma þarf því að styrkja enn frekar þjónustu við aldraða í heimahúsum og bæta skipulag og samhæfingu úrræða á öllum þjónustustigum.

Hlutfall aldraðra á stofnunum hefur lengst af verið mun hærra hér á landi en hjá nágrannaþjóðum okkar. Hlutfallið hefur þó lækkað nokkuð á liðnum árum. Ég er aftur á móti sannfærður um að enn megi ná árangri í þá átt að hjálpa öldruðum við að búa lengur á eigin heimili með aukinni þjónustu, sérstaklega dagvistarúrræðum, hvíldarinnlögnum, öflugri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Að þessu er stefnt. Þetta er einmitt eitt af aðalmarkmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

Spurt er um biðlista eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík. Samkvæmt vistunarskrá í september voru 258 aldraðir á biðlista metnir í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík. Á höfuðborgarsvæðinu öllu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ, voru samtals 339 aldraðir á biðlista í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými á þessum tíma samkvæmt vistunarskrá.

Spurt er um áætlaða þörf fyrir hjúkrunarrými næstu fjögur ár. Í fyrrnefndri áætlun heilbr.- og trmrn. um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002--2007 kemur fram að samkvæmt vistunarmati er á þessu ári talin þörf fyrir 1.440 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu á móti 1.159 rýmum í notkun. Samkvæmt áætluninni skortir því 281 hjúkrunarrými til að uppfylla þörfina. Hafa ber í huga að þarna eru ekki talin með 92 hjúkrunarrými í Sóltúni sem tekin voru í notkun í upphafi þessa árs. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að að öllu óbreyttu hækki þessi tala í 386 rými árið 2005, 398 árið 2007 og 470 árið 2010.

Virðulegi forseti. Vandi þeirra sem metnir eru í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými verður ekki leystur nema með aukinni þjónustu í heimahúsum. Þann vanda þarf að leysa með fjölgun hjúkrunarrýma og að því er unnið. Sem fyrr segir voru tekin í notkun 92 ný rými hjá Sóltúni í byrjun þessa árs. Á þessu ári voru einnig tekin í notkun 20 ný hjúkrunarými við Sunnuhlíð í Kópavogi og áætlað er að sjö komi til viðbótar þar á næsta ári. Einnig er áætlað að á vegum Kópavogskaupstaðar á næsta ári verði opnað 10 rýma sambýli fyrir heilabilaða. Með byggingu nýrrar hjúkrunarálmu hjá Hrafnistu fjölgar rýmum um 60 en á móti kemur fækkun rýma um 30 vegna endurbóta á eldra húsnæði. Stefnt er að stækkun Eirar og Droplaugarstaða. Áformað er að nýtt 100 rýma hjúkrunarrými rísi í Sogamýri og það verði tekið í notkun árið 2005. Eins og fram kemur í viljayfirlýsingu minni og borgarstjórans í Reykjavík er áætlað að hefja undirbúning að byggingu nýs 100 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjavík á tímabilinu 2003--2005 sem reiknað er með að tekið verði í notkun árið 2007.

Auk þess sem hér hefur verið talið er í skoðun möguleiki á að nýta húsnæði Vífilsstaða undir hjúkrunarrými. Sá kostur virðist fjárhagslega hagkvæmur því að ekki þarf að gera stórkostlegar breytingar á húsnæðinu til að það sé mögulegt. Fáist fé til þeirra framkvæmda er unnt að vinna verkið hratt og ætti að vera hægt að opna þar 52 ný hjúkrunarrými auk 19 rýma biðdeildar, alls 71 rými innan 6 mánaða sem mundu bæta verulega úr brýnum vanda.

Því miður er vilji ekki allt sem þarf. Það þarf líka fjármuni til að hrinda öllum þessum áformum í framkvæmd. Mikið veltur á fjárlagaramma ráðuneytisins og ég sem yfirmaður þessa málaflokks mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að vinna þessum málum brautargegni.

Í september sl. efndi ríkisstjórnin til formlegs samráðs við Landssamband eldri borgara um breytingar á almannatryggingalögum og endurskoðun á lífeyrisgreiðslum. Nefndinni var einnig falið að fjalla um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða með það að markmiði að draga úr biðtíma og bæta þjónustu. Þessari nefnd er ætlað að vinna hratt og má vænta tillagna frá henni um miðjan nóvember.