Reglugerð um landlæknisembættið

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:44:00 (781)

2002-10-30 14:44:00# 128. lþ. 18.3 fundur 125. mál: #A reglugerð um landlæknisembættið# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hefur verið komið inn á reglugerðir, hvernig þær úreldast og þörf framkvæmdarvaldsins fyrir að fylgjast með setningu reglugerða. Ég hef í raun engu við það að bæta sem ég sagði áðan, þ.e. um efni fyrirspurnarinnar. Ég tel ástæðu til að endurskoða bæði lög og reglugerðir um landlækni. Ég vil hins vegar segja, varðandi vinnubrögðin við gerð frumvarpa, að auðvitað er æskilegt að uppkast að reglugerð liggi fyrir þegar frumvörp eru lögð fram. Það gerir það í einstökum tilfellum. Það er vel séð og ég tel einnig æskilegt að þingnefnd sé kynnt reglugerð þegar hún er lögð fram í framhaldi af samþykkt laga. Það hefur verið gert í mörgum tilfellum. Ég þori ekki að fullyrða úr þessum ræðustól hér og nú að það hafi verið gert í öllum tilfellum. En veigamiklar reglugerðir hafa verið kynntar þingnefndum. Ég tel það af hinu góða ef hægt er að koma því við.

Ég tel ástæðu til að ræða og vekja athygli á þessum málum og vinnureglum í þeim efnum. Ég vil segja að ef hægt er að koma því við að kynna drög að reglugerð með frumvörpum þá væri það æskilegt. Það er líka æskilegt að kynna þingnefndum reglugerðir sem settar eru. Það hefur verið gert í mörgum tilfellum en um það er ekki, svo mér sé um það kunnugt, nein algild regla.