Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:55:29 (787)

2002-10-30 14:55:29# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Okkur ber að búa vel að því fólki sem þarf að dvelja og búa á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Það er því dapurlegt að heyra af því fréttir að flest þessara heimila séu rekin með miklum halla og vanti fjármagn til að standa undir þeirri starfsemi sem þeim er ætlað að sinna.

Það er jafnframt, herra forseti, mikilvægt að fram fari samræming á framlögum til þessara heimila. Sum heimilin búa við verðbætta samninga, önnur ekki. Heimili eins og Sóltún fær margfaldar upphæðir á hvern vistmann miðað við önnur heimili. Þarna er í gangi skipulögð mismunun á fólki eftir því á hvaða heimili það dvelur. Þetta er náttúrlega afleitt.

Ég vil því spyrja, herra forseti, hæstv. heilbrrh.: Er ekki ætlunin að fara í samræmingarvinnu, samræma kjör, aðbúnað og framlög til þessara stofnana?