Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:58:04 (789)

2002-10-30 14:58:04# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en bendi á að hér er aðeins um að ræða tölur frá þessu ári samkvæmt 8--9 mánaða uppgjöri. Þessi heimili glíma flestöll við uppsafnaðan vanda. Þennan vanda þekkjum við þingmenn býsna vel orðið, sérstaklega eftir nýliðna kjördæmaviku. Ég býst við að við eigum það öll sammerkt að hafa rætt við sveitarstjórnir eða rekstraraðila þessara heimila og umræðan snúist um að þarna stefndi í þrot og þessu væri bjargað með yfirdrætti frá degi til dags eða milli mánaða. Margir hafa kvartað yfir því viðhorfi í ræðum hæstv. fjmrh. að hann undraðist þennan halla, eins og þar hafi ekki verið hagrætt í rekstri sem hefur þó svo sannarlega verið gert.

Við verðum að taka á þessu. Ég tek undir orð hv. þm. Guðmundar Hallarðssonar hér áðan, að það virðist sem ekki hafi á nokkurn hátt verið unnið úr skýrslunni sem skilað var um þessi mál fyrir ári.