Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:02:08 (791)

2002-10-30 15:02:08# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Í dag stendur Vífilsstaðaspítali auður. Í dag er engin starfsemi á spítalanum. Það var 5. september 1910 sem hin merka saga hans hófst og þá fyrst sem berklaspítala. Í júní í sumar lagðist starfsemi spítalans af og síðan hefur húsið staðið autt.

Ástæðan fyrir fyrirspurn minni til hæstv. heilbrrh. er í rauninni margþætt. Helst má þó nefna mikla þörf og brýna fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða. Vífilsstaðir eru fyrir margra hluta sakir heppilegur staður til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Ég vil m.a. benda á leið sem Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala -- háskólasjúkrahúss, benti á, að það væri ekkert ólíklegt að Landspítalinn sæi um eignina en heilbrrn. legði síðan fram fé til að reka þar einhvers konar þjónustu við aldraða eins og hann sagði.

Staðsetningin er afar góð. Það kemur m.a. fram í skýrslu frá samstarfshópi heilbrrh. til að meta kosti og galla svæða undir hátæknisjúkrahús. Þar er staðsetningin eitt af þeim atriðum sem þeir telja til kosta Vífilsstaðaspítala.

Í öðru lagi var ég í síðustu viku viðstödd afar skemmtilegt og merkilegt íbúaþing í Garðabæ sem leiddi m.a. af sér góðar umræður um skipulag Garðabæjar. Þar kom berlega í ljós að það þarf skýra og augljósa stefnumörkun varðandi svæðið kringum Vífilsstaði. Það er einn af lykilþáttum uppbyggingar Garðabæjar að skýrt verði hvaða starfsemi komi þangað. Garðbæingar hyggja m.a. á frekari uppbyggingu í Hnoðraholtinu.

Síðast en ekki síst nefni ég yfirlýsingu heilbrrh. í DV 4. september 2002 þar sem segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Vill langlegudeild á Vífilsstöðum sem opnuð yrði á næsta ári.``

Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrrh.:

Hvað líður skipulagningu hjúkrunarrýma fyrir aldraða á Vífilsstaðaspítala, samanber yfirlýsingu ráðherra í sumar?