Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:11:16 (795)

2002-10-30 15:11:16# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umræðu framtíðarnotkun á Vífilsstaðaspítala og það að nýta hann fyrir aldraða.

Það er náttúrlega ljóst að Vífilsstaðaspítali er barn síns tíma. Hann er gamall og stenst ekki þær kröfur sem við gerum til aðbúnaðar aldraðra í dag. Hann yrði því aldrei annað en tímabundið úrræði fyrir þá einstaklinga sem þangað kæmu inn.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ef hugmyndir er uppi um að nýta Vífilsstaðaspítala á þennan máta verði það einungis sem biðpláss fyrir einstaklinga. En það er heldur ekki góður kostur. Það er ekki gott að flytja fólk frá einum stað til annars meðan verið er að finna varanlegt pláss.

Ég mundi því leggja til að hæstv. ráðherra skoðaði betur hvaða deildir á Landspítala er verið að leggja niður og nýta þau rými fyrir aldraða.