Löggæslumál í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:16:13 (798)

2002-10-30 15:16:13# 128. lþ. 18.6 fundur 202. mál: #A löggæslumál í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem talsvert hefur verið rætt um á fyrstu vikum þingsins eru lögreglu- og löggæslumál. Þau hafa einnig verið rædd á undanförnum þingum. Í umræðunni hefur um skeið komið í ljós að löggæslumál í Rangárvallasýslu eru komin í mjög sérsaka stöðu. Í því sambandi leyfi ég mér að vitna til bréfs sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli skrifaði hinn 17. október 2002 til hæstv. dómsmrh., en þar segir að embætti sýslumannsins á Hvolsvelli hafi staðið frammi fyrir fjárhagserfiðleikum í rekstri og að tekin hafi verið ákvörðun í upphafi árs um að spara verulega í yfirstjórn embættisins. Þegar leið á árið var ljóst að þessar aðgerðir mundu ekki duga til að ná endum saman og var þá tekin ákvörðun um að fækka lögreglumönnum um einn, tímabundið frá og með 1. sept.

Það sem fram kemur í bréfinu er kannski ekki aðalatriðið í þessari umræðu, virðulegi forseti. Veruleikinn er hins vegar sá að nú um stundir eru einungis þrír löggæslumenn að störfum í Rangárvallasýslu. Maður horfir til þess að þarna eru u.þ.b. 3.200 íbúar, hátt í 1.100 manns á bak við hvern lögreglumann sem er það hæsta á landinu. Stöðuna ber einnig að skoða í ljósi þess að um nokkuð stóra sýslu er að ræða. Málið verður einnig að skoða í ljósi þess hvert hlutverk lögreglumanna er. Þar má nefna að þeim er ætlað að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna, vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni, að stemma stigu við afbrotum, vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála. Þeim er þar fyrir utan ætlað að greiða götu borgaranna og veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við störf sín o.s.frv.

Hið sérstæðasta í þessu öllu saman er að mér finnst eiginlega vanta svör við spurningum þeim sem varpað hefur verið fram í þeirri umræðu sem hefur farið fram, þ.e. hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að þrír löggæslumenn geti sinnt öllum þeim verkefnum á svæðinu sem fyrir þá eru lögð í lögreglulögum. Mér fyndist, virðulegi forseti, fróðlegt að vita hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur í þessum efnum, hvort hún telji þetta yfir höfuð nægilegan mannafla og hvernig hæstv. ráðherra hyggst bregðast við þessu að öðru leyti en því að hugsanlega verði lögreglumönnum á svæðinu fjölgað um einn eftir næstu áramót.