Löggæslumál í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:23:01 (800)

2002-10-30 15:23:01# 128. lþ. 18.6 fundur 202. mál: #A löggæslumál í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, vekur hér athygli á máli sem brennur auðvitað á Rangæingum. Auk þess má segja að löggæslumálin brenni á íbúum um land allt. Þessi mál eru því miður ekki í nógu góðu horfi.

Í Austur-Skaftafellssýslu skilst mér að séu tveir lögreglumenn sem annast löggæslu á 300 km vegalengd. Á Hólmavík var að mér skilst fækkað um einn og hefði þó frekar þurft að fjölga þar. Í Hveragerði sem er vaxandi bær með um 2.000 íbúa, þar sem eru allt að 100 íbúðir í byggingu núna, er enginn lögregluþjónn. Ég skil það þannig að þeir hafi jafnvel verið reiðubúnir til þess að leggja til húsnæði undir það.

Ég veit að hæstv. dómsmrh. þekkir þessi mál og skynjar að þarna þarf úr að bæta. Lögreglustarfið er erfitt. Lögregluna þarf að efla, ekki síst rannsóknarstarf hennar. Það þarf að standa vel að í erfiðum sakamálum. Það þarf að efla löggæsluna.