Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 10:34:06 (804)

2002-10-31 10:34:06# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[10:34]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Í lögum nr. 85 15. maí 2002, um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, voru m.a. ákvæði um sérstakar aflaheimildar sem ráðherra skyldi ráðstafa, annars vegar til tilrauna með áframeldi í þorski og hins vegar til stuðnings byggðarlögum sem lent hefðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Samkæmt b-lið 16. gr. laga nr. 85/2002 hefur ráðherra til ráðstöfunar 500 lestir af þorski til tilrauna með áframeldi í þorski. Heimild þessi tók gildi á fiskveiðiárinu 2001/2002 og gildir næstu fimm fiskveiðiár. Aflaheimildum þessum var því fyrst úthlutað á síðasta ári en vegna þess hve liðið var á fiskveiðiárið þegar lögin voru samþykkt og undirbúningi reglna um úthlutunina þar af leiðandi lokið nýttust þessar heimildir ekki nema að hluta og er hér lagt til að ónýttrar aflaheimildir fiskveiðiársins 2001/2002 flytjist til yfirstandandi fiskveiðiárs.

Með 4. gr. laga nr. 85/1990 var 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, breytt þannig að ráðherra var veitt heimild til að ráðstafa árlega allt að 1.500 lestum af botnfiski til stuðnings byggðarlögum sem lent hefðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Hafa skyldi í því sambandi samráð við Byggðastofnun. Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2002 segir að á fiskveiðiárinu 2001/2002 skyldi úthlutun þessi þó takmarkast við 500 lestir. Þar sem það hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir að setja reglur um þessa sérstöku úthlutun kom hún ekki til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2001/2002. Er því lagt til að þessi heimild flytjist til yfirstandandi fiskveiðiárs og verði því úthlutað 2.000 lestum í framangreindum tilgangi í ár.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.