Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:47:14 (812)

2002-10-31 11:47:14# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:47]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég er nokkuð ósammála hv. þm. Karli V. Matthíassyni. Við erum náttúrlega að tala um breytingar á kerfi og ég tel að byggðatenging kvóta sé grunnur þess að ungir menn eins og hv. þm. talaði um geti komið inn í greinina. Það eru dæmi um það í sveitarfélögum sem úthlutað hefur verið til úr pottum að sveitarstjórn hefur tekið ákvörðun um það, raunar á íbúaþingi, að ungir menn ættu að fá þann kvóta til að geta hafið útgerð.

Auðvitað treystum við á dugnað og framsýni þeirra sem eru heima fyrir. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það muni vera rík hugsun í þá átt, t.d. á grunni byggðakvóta, að hleypa ungum duglegum mönnum inn í greinina. Hluti aflaheimilda eftir okkar hugmyndum fer á markað og það skapar grunn fyrir þessa ungu menn að eflast innan greinarinnar af dugnaði sínum.