Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:48:28 (813)

2002-10-31 11:48:28# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:48]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talaði út frá kvótakerfi og sagði að hann vildi innköllun veiðiheimildanna. Við erum sammála um þetta. Hann leggur áherslu á byggðatengingu. Við höfum aldrei lagst alfarið gegn því að ræða það mál, að kvóti verði byggðatengdur með einhverjum hætti.

En það var annað sem hv. þm. sagði sem fékk mig til þess að standa upp, þ.e. þessi algera andstaða hans við markaðstengingu. Ég vil biðja hann að útskýra það fyrir þingmönnum hvernig hann ætlar að velja þá sem eiga að fá að veiða fiskinn eigi ekki nota markaðstengingu. Sannleikurinn er bara sá að markaðurinn er óumflýjanlegur í íslensku þjóðfélagi. Íslenskt þjóðfélag er markaðsþjóðfélag. Þegar menn eru farnir út úr því lenda þeir í þeim ógöngum sem hér hefur verið lýst, þegar stjórnvöld ganga í að handvelja eða búa til reglur eins og gert hefur verið við úthlutun á veiðiheimildum. Þetta hefur stuðlað að stöðugt meira óréttlæti milli þeirra sem standa í þessum atvinnuvegi og fólksins sem býr í þessum byggðarlögum.

Þetta er aftan úr öldum, að geta ekki fallist á að nota markaðinn til að menn hafi jafnræði til að nýta þær veiðiheimildir sem verða á staðnum sem þeir gera út frá. Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum á að fara að? Á að fara eftir því hvar menn eru í stafrófsröðinni? Eftir hverju á eiginlega að velja menn sem eiga að fá að fiska?