Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:50:30 (814)

2002-10-31 11:50:30# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Jóhann Ársælsson verði að lesa tillögu okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði kvölds og morgna og um miðjan daginn fyrst hann setur mál sitt svona fram. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að grunntenging sé við byggðarlög og heimildunum sé úthlutað heima fyrir og byggðarlögunum í sjálfsvald sett hvernig það er gert. Þau gætu í sjálfu sér sett þær á markað heima fyrir gagnvart þeim útgerðaraðilum sem starfa í byggðarlaginu.

Hins vegar er líka gert ráð fyrir því að 1 3 fyrndra aflaheimilda fari á almennan markað. Að setja málin þannig fram að við séum aftan úr öldum og kunnum ekki að nýta okkur markaðslögmálin, ég bara frábið mér þannig framsetningu. Það er ekki í tillögunum og við höfum þráfaldlega lýst því yfir í málflutningi okkar að við erum alls ekkert andvíg því að lögmál markaðarins séu notuð þar sem það á við. Við höfum hins vegar lýst því yfir að í þágu íslensks samfélags viljum við í vissum þáttum, svo sem í fjarskiptamálum, raforkumálum og samgöngumálum, byggja á stýringu ríkisins sem er allt annars eðlis.

Það hefur verið málflutningur Samfylkingarinnar lengi að við getum ekki hugsað okkur markaðskerfið. Við höfum aldrei sagt það, aldrei sett mál okkar þannig fram. Við höfum þráfaldlega bent á að við teljum að markaðurinn eigi að stjórna á þeim sviðum sem ekki varða grundvallarþarfir almennings og almannaheill. Á öðrum póstum viljum við nota ríkisstýringu eða sérleyfi o.s.frv., eins og í grunnþjónustunni, stoðkerfisþjónustunni.