Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:47:11 (827)

2002-10-31 13:47:11# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Enn eru blikur á lofti í heilsugæslunni. Þess er skemmst að minnast að við töluðum hér utan dagskrár fyrr í þessum mánuði. Sem stendur ber hæst uppsagnir lækna á Suðurnesjum og í Hafnarfirði. Hætti þeir störfum þá eru það tíu læknar 1. nóv. og tíu í Hafnarfirði 1. des. og þar með hafa 25 sérmenntaðir heimilislæknar horfið úr starfi á einu ári til mikils skaða fyrir sjúklinga þeirra. Læknunum finnst þeir skör lægra settir en aðrir sérfræðingar í læknisfræði hvað starfskjör og starfsréttindi varðar. Þeir vilja eiga möguleika á að geta starfað sjálfstætt eins og aðrir læknar en ekki eingöngu sem ríkisstarfsmenn. Náist þetta er ég þó þess fullviss að flestir þeirra mundu kjósa að starfa áfram á heilsugæslustöðvunum þótt það geti verið undir öðrum formerkjum. Þeir vilja nefnilega helst sinna sjúklingum sínum þótt þeir líti svo á að réttindi séu mikilvæg.

Er ekki eðlilegt, herra forseti, að heimilislæknar beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á vinnu sinni? Er það ekki eftirsóknarvert að halda í góða fagmenn en veita þeim jafnframt það frelsi sem þeir óska eftir? Hvernig gæti það litið út? Ég sé fyrir mér að bjóða mætti starfandi heimilislæknum upp á að starfa sem verktakar, t.d. svipað og samið hefur verið við lækna í heilsugæslunni í Lágmúla og gerður þjónustusamningur um þá verktöku.

Annar kostur væri að bjóða þeim upp á samning um að sinna ákveðnum sjúklingahópi, t.d. 1.200--1.500 manns hverjum, og byggðist það á fyrirliggjandi samningi, þ.e. samningi sjálfstætt starfandi heimilislækna.

Hæstv. ráðherra segist ekki tilbúinn að tvískipta heilsugæslunni í landinu. Ég skil það vel en ég verð samt að benda á að heilsugæslunni er nú þegar tvískipt. Hún hefur ekki mannafla til að sinna þeim verkum og sjúklingum sem þangað vilja leita. Þess vegna er þeim verkefnum sinnt annars staðar. Að auki eru sjálfstætt starfandi heimilislæknar, t.d. í Reykjavík, sem senda Tryggingastofnun ríkisins reikninga fyrir unnin læknisverk. Þar er því ekkert nýtt á ferðinni. En ég veit að heilbrrh. er það efst í huga að styrkja heilsugæsluna. Ef honum tekst að gera það nú mun líka hætta að kvarnast úr þeim hornsteini sem heilsugæslan er.