Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:56:27 (831)

2002-10-31 13:56:27# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill að allir þegnar landsins hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu óháð stöðu og tekjum. Meginstoðir heilbrigðisþjónustunnar eru heilsugæslustöðvarnar, sjúkrahússtofnanirnar og sjálfstætt starfandi sérfræðingar.

Staðreyndin er sú að heilsugæslustöðvar og sjúkrastofnanir hafa afmarkaðan ramma samkvæmt fjárlögum. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar hafa hins vegar getað vísað reikningum sínum áfram á Tryggingastofnun. Þetta hefur leitt til þess að stofnanir eins og heilsugæslustöðvar og sjúkrahúsin eru stöðugt að berjast við að halda rekstri sínum og starfsemi innan fjárlaga í stað þess að verja stöðu sína sem hluta af heilbrigðiskerfi þjóðarinnar.

Samkvæmt óbeinni og beinni einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðiskerfinu hafa sjúkrahúsin og heilsugæslustöðvarnar í æ ríkari mæli vísað verkefnum sem voru hefðbundin inni á þessum stofnunum frá sér til sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem geta síðan sent reikninginn áfram á Tryggingastofnun. Þessi þróun er þvert á hina opinberu stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum þar sem gert er ráð fyrir því að heilsugæslustöðvar séu fyrsti viðkomustaður í heilsugæslunni.

Herra forseti. Það verður að snúa þróuninni við. Menn verða að átta sig á því hvers konar skipulag við viljum hafa á heilsugæslunni í landinu. Við viljum að þar ríki jöfnuður. Þróist kerfið í sömu átt og það er nú að gera eigum við á hættu að fólk fái þjónustu eftir stöðu og efnahag. Það viljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði alls ekki.