Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:43:12 (846)

2002-10-31 14:43:12# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég frekar en aðrir muni verða krafinn svara fyrir kosningar. Það er ekkert nýtt að þingmenn deili áhyggjum sínum af stöðu einstakra sjávarplássa. Það þarf ekkert að fara í miklar orðræður um það við hv. þm., Jón Bjarnason.

Ég verð hins vegar að leiðrétta misskilning hjá hv. þm. Ákafi hans verður stundum svo mikill að honum svona dálítið daprast sýn sýnist mér, t.d. þegar hann fullyrðir að frv. fjalli ekkert um þorskeldi. Lesi hv. þm. það sem segir í hinni einu efnisgrein frv. og þeim stuttu athugasemdum, skýringarákvæðum með greininni. Frv. fjallar nefnilega um heimild til þess að færa 500 tonn til að styðja við bakið á þeim sem vilja (Gripið fram í.) stunda áframeldi í þorski. Og til allrar hamingju hafa fjölmargir einstaklingar sótt um leyfi. Margir þeirra hafa fengið það leyfi og eru að byggja upp ágætt starf þrátt fyrir svartsýni hv. þm. Jóns Bjarnasonar. (Gripið fram í.)