Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:48:28 (850)

2002-10-31 14:48:28# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að auðvitað eigum við alltaf að vera vakandi fyrir sóknarfærum hvað varðar nýtingu auðlinda okkar hvar sem er. Og það er mjög gild spurning hvers vegna við erum ekki löngu byrjuð á þorskeldi.

Ég kann svo sem ekki svar við því. Það gæti þó verið vegna þess að lengst af var afli nægur. Við veiddum fyrir ekki svo óskaplega mörgum árum um 450 þús. tonn af þorski en þau fóru allt niður í 150 þús. tonn. Auðvitað tekur það í og skiptir þá ekki máli hvert fiskveiðistjórnarkerfið er. En það sem gerist núna er frumkvæði framsýnna einstaklinga víða um land sem sækja fram í þessu, setja sig í samand við vísindamenn hjá Hafrannsóknastofnun, og í sameiningu má segja að þeir dragi vagninn og marki sporin fyrir þessa nýju atvinnugrein. Þess vegna kemur þetta ákvæði, það frv. sem hér er til umræðu, ágætlega í kjölfar þess og styður við þetta ágæta frumkvæði umræddra einstaklinga.