Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:53:42 (854)

2002-10-31 14:53:42# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Alveg er það rétt að ágreiningur um sjávarútveginn er alvarlegur. Og það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að ná sátt í þeim efnum. Það er mikilvægt fyrir sjávarbyggðirnar, það er mikilvægt fyrir þjóðina í heild og það er mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem eru þó að reyna að basla við að halda uppi atvinnu í sjávarbyggðum, reyna að skapa atvinnu og verðmæti. Þeir þurfa auðvitað að hafa sitt umhverfi til þess að lifa í, og við þurfum að skapa sátt.

Gallinn er bara sá að við vitum ekki um hvað sáttin á að vera. Hvar er patentlausnin? Hún hefur ekki fundist. Ég hygg að lausnirnar séu nánast jafnmargar og hv. þm. eru. Það fer eftir því hvaðan menn koma. Það má segja að sínum augum líti hver á silfrið. Patentlausnirnar hafa ekki verið kynntar.

Alveg óháð þessu, herra forseti, hvaða skoðanir og hversu mikil sem ósáttin er um stjórn fiskveiða og sjávarútvegskerfið mun þorskeldið vonandi þróast áfram óháð því hvaða fiskveiðistjórnarkerfi við búum við.