Uppbygging sjúkrahótela

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:02:49 (859)

2002-10-31 15:02:49# 128. lþ. 19.8 fundur 25. mál: #A uppbygging sjúkrahótela# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um uppbyggingu sjúkrahótela. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ögmundur Jónasson og Kolbrún Halldórsdóttir. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir uppbyggingu sjúkrahótela.``

Þáltill. er flutt í annað sinn. Hún var flutt á síðasta þingi og fékkst þá ekki útrædd. En það hefur lítið breyst, herra forseti, hvað varðar tilurð þessarar þáltill. Við höfum verið að ræða vanda heilbrigðisþjónustunnar í landinu, bæði stóru sjúkrahúsanna og nú fyrr í dag vanda heilsugæslunnar og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það sem við þurfum að gera er að hafa heildarsýn yfir þennan stóra og mikilvæga málaflokk sem hefur tekið æ stærri skerf af opinberu fé og stór hluti af fjárlögum hvers árs fer til rekstrar heilbrigðisþjónustunnar á mismunandi sviðum og því ber okkur í fyrsta lagi að sjá til þess að þjónustan sé fullnægjandi og jafnaðgengileg fyrir alla og eins að horfa á þá þætti sem hugsanlega geta dregið úr kostnaði við reksturinn eins og hann er í dag.

Segja má að sjúkrahótel og sú hugmynd sem liggur að baki rekstri sjúkrahótela sé verulega vannýttur kostur hér á landi. En megintilgangur sjúkrahótela er að draga úr þörf og eftirspurn eftir sjúkrahúsplássum. Sjúkrahótel er ákveðið millistig milli sjúkrahúss og hótels. Þar geta sjúklingar dvalist meðan þeir að bíða eftir þjónustu á sjúkrahúsi eða eru að jafna sig eftir aðgerðir og eru hvorki það veikir að þeir þurfi að liggja á sjúkrahúsi né það frískir að þeir geti verið án daglegs eftirlits.

Ljóst er að kostnaður í dag á sjúkrahóteli er margfalt minni en kostnaður við legupláss á sjúkrahúsi. Þetta á, herra forseti, sérstaklega við um hátæknisjúkrahúsin og vil ég nefna Landspítala -- háskólasjúkrahús við Hringbraut og í Fossvogi og eins Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem sjúklingar eru í sérhæfðri meðferð og margir hverjir búnir að fá meðferð og/eða hefðu heilsu til þess að vera utan sjúkrahússins ef þeir hefðu aðstæður heima fyrir á höfuðborgarsvæðinu eða þá að þeir ættu ekki heima svo fjarri sjúkrahúsinu að þeir gætu farið heim til sín.

Sjúkrahótel er kostur sem við þekkjum í dag því Rauði kross Íslands hefur rekið sjúkrahótel alveg frá árinu 1974, en að mínu mati og margra annarra hefur uppbygging þeirrar þjónustu eða fjölgun herbergja ekki fylgt eftir þörfinni. Þó svo að bætt hafi verið við herbergjum, og þá sérstaklega yfir vetrartímann þegar hótelið, sem að öðru leyti er rekið sem venjulegt hótel, er ekki fullnýtt af hótelgestum, þá hefur Rauði krossinn fengið leyfi til þess að nýta það sem sjúkrahótel og fengið greitt fyrir hvert herbergi, þ.e. fyrir hvern einstakling sem þar gistir.

Aftur á móti er alveg ljóst að þetta eru ekki nærri nægilega mörg pláss. Þeir einstaklingar sem hafa nýtt sjúkrahótel Rauða kross Íslands við Rauðarárstíg eru að einum þriðja hluta íbúar af höfuðborgarsvæðinu sem búa við þær aðstæður að þeir geta ekki farið heim, en tveir þriðju hlutar eru frá landsbyggðinni. Mjög margir þeirra eru einstaklingar sem eru í sérhæfðri krabbameinsmeðferð og þurfa að vera allt að sex vikur í slíkri meðferð, þurfa að koma allt að því daglega og búa það fjarri að þeir geta ekki farið heim. Að öðru leyti yrðu þeir að liggja inni á sjúkrahúsinu eða dvelja hjá ættingum og vinum eins og því miður margir verða enn að gera því ekki er rými á sjúkrahótelinu.

Fram að síðustu áramótum féllu sjúkrahótel undir skilgreiningu sjúkrahúsa í heilbrigðislögum, en þá var sú skilgreining felld niður með frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þessi breyting á skilgreiningu sjúkrahúsa kallar á nýja skilgreiningu svo að þessi mikilvægi rekstur standi á öruggum lagalegum grunni innan heilbrigðisþjónustunnar en hann gerir það ekki í dag og því er þessi rekstur, eins og hann er í dag hjá Rauða krossi Íslands, svolítið í lausu lofti. Sú breyting á lögunum var gerð til þess að Rauði krossinn gæti tekið gjald, fæðisgjald af hverjum sjúklingi eða gesti sem dveldi hjá þeim. Að mínu mati var þetta ástæðulaus breyting og eðlilegra hefði verið að við skilgreindum sjúkrahótelin frekar og gerðum rekstur sjúkrahótela hluta af rekstri sjúkrahúsanna.

Sjúkrahótel eru rekin alls staðar á Norðurlöndunum en með mismunandi sniði, mismunandi rekstrarformum og mismunandi náið tengd sjúkrahúsunum. Þar sem nýtingin er hvað best eru sjúkrahótelin á sjúkrahúslóðinni og algjörlega nýtt sem þjónustuform við sjúkrahúsin.

Gerð hefur verið rækileg úttekt á rekstri sjúkrahótela á Norðurlöndunum og í niðurstöðu þeirrar könnunar sem birtist í skýrslu 1996, en könnunin var gerð 1995, kom fram að megintilgangur með rekstri sjúkrahótelanna var að auka rekstrarhagkvæmni, bæta þjónustuform sem hentaði ákveðnum sjúklingahópum og að það væru valkostir, að hægt væri að bjóða upp á valkosti á milli sjúklingahótels og sjúkrahúsdvalar, en að sjálfsögðu er dvöl á sjúklingahóteli miklu ódýrari fyrir samfélagið en sjúkrahúsdvölin og er ódýrasta rekstrarformið og ef vel er að hlutum staðið finnur sjúklingurinn lítið fyrir þeim mismunandi rekstrarformum.

Við vitum líka að nær helmingur eða stór hópur þeirra sjúklinga sem liggja inni á sjúkrahúsum í dag er í raun rangt staðsettur, gæti verið annars staðar, hefur þegar fengið meðferð og lokið henni eða gæti fengið samsvarandi meðferð á öðrum stað, en ekki er hægt að útskrifa þessa sjúklinga þar sem annað þjónustuform er ekki til staðar eins og hjúkrunarheimili eða það góð heimilisþjónusta og heimahjúkrun að hægt sé að senda sjúklinga heim.

Krabbameinsfélag Íslands hefur sannarlega fundið fyrir því að skortur er á slíkri þjónustu þar sem mjög margir einstaklingar sem eru í krabbameinsmeðferð nýta sjúkrahótelið við Rauðarárstíg. Krabbameinsfélagið hefur brugðist við þessu með því að kaupa íbúðir í nærliggjandi húsi sem félagið úthlutar til krabbameinssjúklinga og þetta er viðbót við sjúkrahótelið. En þær íbúðir eru, eins og sjúkrahótelið í dag, alveg fyrir utan heilbrigðiskerfið og vantar skilgreiningu og eru ekki hluti af okkar þjónustu.

[15:15]

Fyrir dyrum stendur að halda áfram uppbyggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Verið er að skoða mismunandi byggingarmöguleika á landspítalalóðinni við Hringbraut og í Fossvogi. Eins er verið að byggja upp Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. En með aukinni þjónustu og fyrirhuguðum breytingum tel ég rétt að sjúkrahótel sé hluti af þeirri framtíðarsýn og sé þegar í upphafi við skipulag lóða og uppbyggingu sjúkrahúsanna inni í myndinni sem ákveðin hliðarþjónusta eða valkostur við starfsemi sjúkrahúsanna.

Þetta á ekki síður við um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri því með eflingu þess koma sjúklingar ekki eingöngu af Eyjafjarðarsvæðinu heldur lengra að, líka af stórum hluta Austurlands. Þá er um langan veg að fara. Krabbameinsmeðferð er veitt á FSA og þeim sjúklingum mun fjölga sem þyrftu á dvöl að halda fyrir utan sjúkrahúsið. Það eru ekki allir sem eiga ættingja eða vini eða hafa áhuga á því að dvelja inni á öðrum heldur þurfa á friði og ró að halda og að geta verið í nánum tengslum við sjúkrahúsin.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur mikið verið skrifað um nauðsyn þess að koma á og byggja upp sjúkrahótel sem þjónustuform við hátæknisjúkrahúsin okkar. Í þeirri umræðu sem við tökum hér hvað eftir annað um að reyna að draga úr kostnaði í heilbrigðisþjónustunni jafnframt því að halda uppi góðu þjónustustigi þá er þetta að mínu mati kostur sem við eigum að horfa til og hann mun létta rekstur sjúkrahúsanna um leið og sjúkrahótelin bæta öryggi sjúklinganna. Við tölum um gesti á sjúkrahótelum en ekki sjúklinga og ekki innlagnir. En eins og ég sagði áðan þá eru mismunandi rekstrarform á Norðurlöndunum og vísa ég til þess sem tengir sjúkrahótelin við rekstur sjúkrahúsanna.

Herra forseti. Eftir að umræðu um þessa þáltill. er lokið óska ég eftir því að tillögunni verði vísað til hv. heilbr.- og trn.