Uppbygging sjúkrahótela

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:17:55 (860)

2002-10-31 15:17:55# 128. lþ. 19.8 fundur 25. mál: #A uppbygging sjúkrahótela# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur hér mælt fyrir till. til þál. um uppbyggingu sjúkrahótela. Að mínu mati er þetta afar mikilvægt mál. Ég held að flest okkar þekkjum þetta á eigin skinni, ef svo má taka til orða. Við þekkjum þessa tilhneigingu í heilbrigðisþjónustunni, á sjúkrahúsunum, hjá sérfræðingum sem vinna við aðgerðir eða læknisverk á fólki, að stytta tímann sem fólk þarf vera á sjúkrahúsi, þessa sterku tilhneigingu til þess að senda sjúklinga sem fyrst heim eða sem fyrst út af sjúkrahúsunum.

Mörgum þykir nóg um þann mikla hraða sem þar er á ferð. Hann er oft til kominn vegna sparnaðar og vegna þess að menn halda að þetta sé hagkvæmara fyrir sjúklinginn að einhverju leyti. Þetta er komið til vegna þess að sum sjúkrahúsa sem aðgerðir eru framkvæmdar á eru nánast lokuð um helgar og geta ekki hýst sjúklinga yfir helgar. Ég þekki þess dæmi. Það finnast einmitt tilvik eða aðstæður eins og hv. þm. Þuríður Backman rakti og því er mikilvægt að góð úrræði séu til fyrir fólk sem ekki getur farið heim til sín vegna þess að það þarf að vera undir stöðugu eftirliti og hægt verður að vera að grípa inn í og veita því aðhlynningu, en það þarf kannski ekki á beinni sjúkrahúsvist að halda.

Við þekkjum það með fólk sem kemur utan af landi og leggst á sjúkrahús til aðgerða, að það er látið fara út því að það er kannski fært um það, en hefur í sjálfu sér enga aðstöðu til þess að dveljast á höfuðborgarsvæðinu. Sérhæfingin leiðir til þess að æ fleiri aðgerðir verða að fara fram hér eða t.d. á Akureyri. Fólk verður þá að dvelja fjarri heimilum sínum meðan það bíður eftir hvernig aðgerðin hefur tekist og þörf er á eftirliti og aðhlynningu. Það er dýrt spaug og í rauninni ekki spaug, það er alvarlegt ef aðgerðir mistakast eða sjúklingur er lengi að jafna sig eftir aðgerð vegna þess að hann hefur orðið að fara of snemma heim og kannski þurft að ferðast um langan veg of fljótt eftir aðgerðina. Þá getur hann jafnvel þurft að leggjast inn aftur vegna þess að eftirköstin hafa orðið slík þau hafa leitt til þess.

Því er þessi tillaga til komin sem hér er flutt um að byggð verði upp sjúkrahótel, dvalarstaðir þar sem fólk nýtur þessa öryggis og þeirrar aðhlynningar sem brýn er á því tímabili frá því að hægt er að útskrifa það af sjúkrahúsi og þangað til það getur farið og séð um sig sjálft heima hjá sér. Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu sem hefur ekki allt aðstöðu til þess að fara beint heim af sjúkrahúsum, er kannski eitt langtímum saman heima en þarf á stöðugu eftirliti og jafnvel hjúkrun að halda ef svo ber undir. Hér er því á ferðinni mikið þjóðhagsmál og mundi fylla upp í ákveðið bil, ákveðið gap sem þarna er í heilbrigðisþjónustunni.

Hv. þm. vakti líka athygli á því að við breytingu á lögum við afgreiðslu fjárlaga á liðnu ári var staða þessa sjúkrahótels sem nú er starfrækt af Rauða krossinum, sett í óvissu. Áður hafði sú starfsemi verið flokkuð undir starfsemi sjúkrahúsa en er það ekki lengur. Lagalegur grunnur fyrir það starf sem þegar er í gangi á þessum vettvangi er því mjög veikur og ekki tryggur. Það er afar mikilvægt að úr því verði bætt og jafnframt opnaðir möguleikar til þess að styrkja og efla þessa þjónustu við sjúklinga til að brúa bilið frá því að þeir yfirgefa sjúkrahúsin og þangað til þeir geta séð eðlilega um sig í sínum heimahúsum.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé afar brýnt mál fyrir alla þegna þjóðfélagsins hvort sem þeir búa úti á landi og eiga örðugt með að keyra beint heim af sjúkrahúsinu og til síns heima eða á höfuðborgarsvæðinu og hafa ekki aðstöðu heima hjá sér til að geta búið þar við öruggt og nauðsynlegt eftirlit sem er afar brýnt í því millibilsástandi þegar fólk er að jafna sig eftir aðgerðir.

Herra forseti. Þetta er brýnt og gott mál.