Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:35:30 (870)

2002-10-31 16:35:30# 128. lþ. 19.9 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek til máls til að lýsa stuðningi við þessa tillögu sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og Sverrir Hermannsson flytja um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt þar sem lagt er til að ákveðinn sannanlegur ferðakostnaður til og frá vinnu verði frádráttarbær til tekjuskatts.

Ég tel mikið sanngirnismál að á þessu sé tekið hvort sem þessi tölulegu mörk liggja þar sem hv. flm. leggja til eða annars staðar sem er þá þingnefndar að athuga. Meginmarkmið þessa frv. er alveg skýrt.

Það eykur bæði sveigjanleika og sóknarmöguleika í atvinnulífi og búsetu að skattlagning á fjarlægðir sé ekki með óhóflegum hætti. Það að koma til móts við mikinn ferðakostnað til og frá vinnu styrkir einmitt búsetu og atvinnulíf. Staðreyndin er sú að hið opinbera skattleggur nú þegar verulega fjarlægðir í landinu. Það skattleggur fjarlægðirnar með þungaskatti, með olíu- og bensíngjöldum og jafnframt í formi tolla og innflutningsgjalda á bifreiðar. Ég er ekki að leggja til að þau gjöld skuli felld niður en engu að síður ber að hafa í huga hvar þetta kemur þyngst niður. Þetta kemur, herra forseti, þyngst niður á þeim sem eru beinlínis háðir ferðalögum í tengslum við atvinnu sína. Ef við horfum til víða um land þar sem t.d. búskapur á jörðum dregst saman eða jafnvel leggst af og aukinn hlutur í tekjuöflun kemur frá vinnu utan bús mundi aðgerð eins og hér er lögð til verða til þess að styrkja og efla búsetu og tekjur þessa fólks ásamt því að styrkja þá atvinnu sem er stunduð fyrir. Hún gæti þá verið innan hóflegra marka þannig að allt mundi þetta styðja hvert annað.

Tillagan sem hv. flm. flytja um að ferðakostnaður umfram ákveðin mörk vegna vinnu verði frádráttarbær til tekjuskatts er því að mínu mati hið besta og þarfasta mál og kannski ein raunhæfasta aðgerð sem við gætum gert á lagalegum grunni til þess að skapa aukin sóknarfæri í atvinnuuppbyggingu og atvinnulífi, ekki síst úti um hinar dreifðu byggðir. Auk þess gæti það líka orðið til þess að styrkja og efla þá búsetu sem við höfum nú þegar.

Herra forseti. Þetta er hið besta mál. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og óska eftir að frv. fái trausta og jákvæða meðferð af hálfu þingsins.