Uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:56:55 (875)

2002-10-31 16:56:55# 128. lþ. 19.10 fundur 28. mál: #A uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:56]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Steinar Jóhannsson, hreyfir hér þörfu máli. Ég lít á þetta sem byggðamál. Þetta mál felur í sér aukna þjónusta við þá sem þurfa á þessu að halda, að vinna þetta heima í héraði, og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er fullburðugt til þess, sú góða stofnun.

Ég vil benda á að á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, eða FSA eins og sú stofnun er nefnd, starfa um 600 manns sem sýnir hversu mikilvægur vinnustaður þetta er og fær um að taka að sér verkefni eins og hér er um að ræða. Þetta sparar ferðir fólks sem þarf þessa þjónustu um langan veg. Það er hægt að vinna þetta heima fyrir.

Í því sambandi má þó nefna varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, fyrst það var hér til umræðu, að lengi hefur staðið fyrir dyrum að koma þar upp segulómtæki sem mundi spara ferðir sjúklinga um langan veg. Það verður auðvitað að huga að því að það sem auðvelt er að vinna, það sem starfsfólk Fjórðungssjúkrahússins ræður vel við, sé unnið heima í héraði.

Á Húsavík er einnig verið að skoða möguleika á endurhæfingu öryrkja og það er gott að þær góðu og nauðsynlegu stofnanir á landsbyggðinni geti fengið að taka slík verkefni. Það er vel hægt að vinna þau verkefni á þessum heilbrigðisstofnunum. Þetta er næst þeim sem þurfa þjónustuna.

Hvað varðar þessa tillögu þá vil ég benda á þá ágætu aðstöðu sem hefur verið komið upp á Kristnesi og hefur tekið töluverðan tíma, en það er sundlaugin sem nýtist gagngert í endurhæfingarstarf. Ég tek því heils hugar undir þá ágætu tillögu sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Steinar Jóhannsson, flytur hér.