Uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 17:03:26 (877)

2002-10-31 17:03:26# 128. lþ. 19.10 fundur 28. mál: #A uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# þál., Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[17:03]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust að orðlengja um þetta mál frekar. En ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. e., Örlygi Hnefli Jónssyni, fyrir góðar undirtektir. Ég vil einnig þakka hv. þm., kollega mínum, Jóni Bjarnasyni, fyrir góðar undirtektir við málið. Það var svo sem sjálfgefið. Við höfum fjallað um þetta saman. En ég vil bara bæta við að staða Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er mjög mikilvæg fyrir landið allt og styrking sjúkrahússins með sjálfsögðum aðgerðum eins og að gefa sjúkrahúsinu möguleika á því að þjóna því fólki sem er á svæðinu er að mínu mati algjörlega sjálfsögð.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er hátæknisjúkrahús sem er utan höfuðborgarsvæðis og það er gríðarlega mikilvægt fyrir landið í heild sinni að hafa þessa stofnun á Akureyri með öllum sínum tækjabúnaði og mannskap, t.d. ef vá ber að höndum sem við skulum nú vona að aldrei gerist. Sjúkrahúsið gegnir miklu öryggishlutverki og þess vegna eru svo mörg rök fyrir því --- ekki bara þau rök sem ég tíndi til í þáltill., þ.e. að það væri svo sjálfsagður hlutur að sjúkrahúsið þjónaði því fólki sem þyrfti á þessari þjónustu að halda á upptökusvæði þess --- það hníga svo mörg rök að því að þetta sé gert á þennan hátt, ekki bara þau að þjóna þessu fólki, heldur líka í atvinnulegum skilningi og líka í þeim skilningi sem ég var að nefna áðan, að styrkja stöðu sjúkrahússins þannig að það geti verið öflugri og sterkari öryggisventill fyrir landið í heild sinni ef eitthvað ber út af á suðvesturhorninu.

Það er líka mikilvægt fyrir aðrar stofnanir á svæðinu að aukin umsvif Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri geti orðið að veruleika. Ég hef aflað mér upplýsinga í næsta nágrenni, t.d. á sjúkrahúsinu á Húsavík. Þeir geta orðið þátttakendur þar í framhaldsendurhæfingu í þessu máli. Þetta styrkir því ekki bara sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta getur líka verulega styrkt sjúkrahúsið á Sauðárkróki og náttúrlega líka ef við förum lengra austur um og tökum Egilsstaði og Neskaupstað inn í dæmið sem endurhæfingarpósta í þessu máli.

Fyrir allra hluta sakir finnst mér að hér sé um svo borðleggjandi mál að ræða að það þurfi ekki að þola mikla bið og þurfi ekki mjög mikla umfjöllun í nefnd vegna þess að sjúkrahússtjórnin á Akureyri er þekkt í þessu kerfi fyrir að vera vönduð hvað varðar áætlanagerð og fyrir að vera vönduð hvað varðar rekstur stofnunarinnar um margra ára bil. Þetta eru plögg sem liggja öll á borðinu tilbúin til afgreiðslu. Hér er því um pólitíska ákvarðanatöku að ræða sem ætti að geta tekið örskamman tíma.

Ég tel að þetta yrði á fljótvirkan hátt kannski stærsta lóðið á vogarskál þeirrar hugsunar að efla Eyjafjarðarsvæðið núna við næstu fjárlagagerð vegna þess að enn er tími til þess að setja þetta mál inn. Eins og ég kom inn á í framsögu minni eru áætlanir um þetta rétt um 54 millj. kr. Auðvitað þarf að fara yfir þessar áætlanir í nefnd, kalla til forsvarsmenn Fjórðungssjúkrahússins og e.t.v. að jústera tölur o.s.frv. En að mínu mati væri það mjög virðingarvert framtak ríkisstjórnar Íslands ef hún fylgdi nú eftir hugsunum sínum varðandi styrkingu landsbyggðarinnar og þá sérstaklega Eyjafjarðarsvæðis og gæfi þann tón með ákvörðun af þessu tagi. Hér er um 54 milljónir að ræða eins og ég sagði áðan. Þetta er ekki spurning um að verið sé að færa neitt frá öðrum. Það er verið að létta á rekstrinum á suðvesturhorninu. Það er verið að bjóða þjónustuna þeim sem þurfa á henni að halda á Norður- og Austurlandi og það er verið að styrkja grunn stofnananna sem eru í kringum Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Mér er fullkunnugt um að á síðustu missirum og árum hefur orðið mjög aukin þjónusta á milli þessara stofnana, t.d. er mikil samvinna á milli sjúkrahúsanna hvað það varðar að senda eða skiptast á læknum á sérsviði til þjónustu, t.d. á Húsavík o.s.frv.

Hvernig sem maður lítur á málið þá er þetta styrking á starfsemi af þessum toga, þ.e. í heilbrigðiskerfinu, á öllu Norðurlandi og alveg austur úr. Um þetta eru allir sammála sem maður talar við um þessi mál og hafa þekkingu á þeim.

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. heilbrrh. er kominn í salinn. Ég er nú í minni annarri ræðu. Ég þarf svo sem ekki að segja mikið meira um þetta mál. Ég held að hæstv. heilbrrh. hafi hlustað á mál mitt í sjónvarpi á skrifstofu sinni eða í þingflokksherbergi framsóknarmanna. Ég ætla því að ljúka máli mínu og gefa hæstv. heilbrrh. tækifæri á því að úttala sig um það. En vegna stöðu minnar í ræðuhöldum mun ég augljóslega ekki eiga kost á öðru en að veita andsvar við málflutningi hæstv. heilbrrh.

Ég þakka hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni fyrir að koma og veita þessu máli fulla athygli.