Uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 17:10:16 (879)

2002-10-31 17:10:16# 128. lþ. 19.10 fundur 28. mál: #A uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar. Hv. flm. var búinn að aðvara mig um þessa umræðu en ég varð heldur seinn til hennar. Vil ég þó segja hér örfá orð um þetta mál sem hér er flutt af þeim Árna Steinari Jóhannssyni og Þuríði Backman og fjallar um uppbyggingu endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þá að Kristnesi þar sem starfrækt er endurhæfingardeild við glæsilega aðstöðu. Ég hef skoðað aðstöðuna þar og hún er mjög glæsileg til þessara hluta og möguleikar eru á að prjóna þar við.

Miklar breytingar eru í rekstri sjúkrahúsa. Hátæknisjúkrahúsum vex fiskur um hrygg og þau sinna erfiðustu tilfellunum. Því er nauðsynlegt fyrir sjúkrahús á landsbyggðinni almennt að endurhæfa sig og sérhæfa sig í verkefnum. Reyndar er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hátæknisjúkrahús utan höfuðborgarsvæðisins og á að vera það. Hins vegar er endurhæfing náttúrlega eitt af því sem er eðlilegur þáttur í starfseminni þar.

Það er líka áhugi fyrir því á Austurlandi, við sjúkrahúsið í Neskaupstað, að efla þar endurhæfingu. Menn hafa lengi haft það í huga þar en þar er vísir að henni og aðstaða til þeirra hluta.

Varðandi Akureyri þá er ég búinn að fá tilnefningar í skipun nefndar sem á að fjalla um uppbygginguna á Akureyri og gengið verður frá þeirri nefndarskipan nú í þessari viku. Fyrsti fundur nefndarinnar verður væntanlega í næstu viku, en þar verður fjallað um framtíðarþróun Fjórðungssjúkrahússins og hvaða möguleikar þar eru til eflingar þess og hvernig staðið verður að áframhaldandi uppbyggingu, bæði á Kristnesi sem er hluti af starfseminni og ekki síður við aðalstöðvar sjúkrahússins á Akureyri, en þar eru ýmis mál óleyst og ekki þarf að lýsa því.

Ég tel eðlilegt að m.a. þessir möguleikar verði ræddir í þeirri nefnd þó að þáltill. fái að sjálfsögðu þinglega meðferð. Hér er um athyglisvert mál að ræða. Ég vildi koma þessum athugasemdum inn í umræðuna sem fram fer um málið.