Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:33:25 (883)

2002-11-01 10:33:25# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Vegna frétta í gær af hnökrum og töfum á samningaviðræðum ríkisins og Alcoa, fréttir sem hafa raunar verið að búa um sig í fjölmiðlum síðustu vikur, langar mig að óska eftir því að hæstv. iðnrh. upplýsi Alþingi um hvernig þessi mál standa í raun. Við munum hvernig mál þróuðust síðla síðasta vetrar og síðasta vor þegar ríkið átti í samningaviðræðum við Norsk Hydro. Hæstv. ráðherra var þá sökuð um að leyna þingið upplýsingum og gefa villandi upplýsingar. Mönnum er í fersku minni orðaskakið sem átti sér stað í fjölmiðlum út af því máli. Á endanum kom í ljós að samningaviðræðurnar þá fóru út um þúfur. Úr þeim varð ekkert.

Í ljósi þessa alls og þess að framkvæmdir standa nú yfir á hálendinu norðan Vatnajökuls tel ég fulla ástæðu til að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún greini þinginu frá því rétta í málinu. Jafnvel þó að fyrirtækið Alcoa hafi sent út fréttatilkynningu í gær og borið fréttirnar til baka tel ég orðróminn þannig og það þrálátan að ég tel fulla ástæðu fyrir hæstv. ráðherra að ávarpa þingið og upplýsa um hið sanna og rétta, um gang samningaviðræðnanna sem um ræðir.