Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:34:57 (884)

2002-11-01 10:34:57# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:34]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Af þessu máli er það að frétta að það gengur allt samkvæmt áætlun. Reyndar er tímaramminn þröngur. Það er ljóst. Það var ljóst strax og þetta fyrirtæki tók á vordögum ákvörðun um að vinna að því að fara í stórframkvæmdir á Austurlandi. Engu að síður er það mér ánægja að greina frá því að fundir eru haldnir í nánast hverri viku. Annaðhvort eru sendinefndir hér á Íslandi eða þá að sendinefnd okkar fer til Bandaríkjanna til fundar við fulltrúa Alcoa. Ég vonast til að við getum lagt fram frumvörp fyrir jól sem muni kveða á um ýmsa samninga sem gera verður til þess að af þessu verki geti orðið. Áætlanir eru uppi, eins og hv. þm. vita, um að í janúarmánuði muni Alcoa svara endanlega um hvort þeir fari í framkvæmdir.

Þetta er eins og það horfir við mér. Ég sá í gær þegar ég kom til landsins, ég hafði verið á Norðurlandaráðsþingi, að hér höfðu verið fluttar fréttir sem ég veit ekki hvaðan koma. Þar voru ýmsar getgátur sem ég kannast ekki við og nú hefur fyrirtækið Alcoa einnig borið til baka þann fréttaflutning.