Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:36:37 (885)

2002-11-01 10:36:37# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. fullyrðir að allt gangi samkvæmt áætlun. Það hefur áður gerst að hæstv. ráðherra hafi haft slíkar fullyrðingar uppi sem síðan hafa reynst rangar, en þetta á eftir að koma í ljós.

Hitt vil ég taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að fullur skriður virðist á undirbúningsframkvæmdum í tengslum við áformaða Kárahnjúkavirkjun en á sínum tíma voru gefin um það fyrirheit, ég gat ekki skilið þau öðruvísi en sem afdráttarlaus loforð, um að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir nema fyrir lægju allir samningar um orkuverð og annað sem tengist þessum stóriðjuáformum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi orðið um þessi loforð. Var aldrei nein alvara á bak við þau? Það er ekki aðeins náttúran og umhverfið sem hér er í húfi heldur erum við að taka gígantíska efnahagslega áhættu. Það er mikilvægt að allir þættir málsins sem lúta að fjármálalegum og efnahagslegum forsendum liggi fyrir og þinginu hafi verið gerð grein fyrir þeim áður en ráðist er í nokkrar framkvæmdir. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvað varð um þessi loforð? Hvað varð um þessi fyrirheit? Var aldrei nein alvara á bak við þau?