Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:38:15 (886)

2002-11-01 10:38:15# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnast hv. þm. Vinstri grænna nokkuð brattir að ætla að rifja upp þá umræðu sem fór fram í vor þegar Norsk Hydro hætti við og Alcoa tók við í sambandi við framkvæmdir á Austurlandi. Sé farið yfir þá umræðu held ég að þeir mundu ekki virka mjög sterkir. Sannleikurinn er sá að á þeim tímapunkti er því var haldið fram að ég hefði búið yfir upplýsingum sem ég hefði ekki gefið þinginu var það þannig að fyrirtækið sjálft, Norsk Hydro, fullyrti í fjölmiðlum að unnið væri samkvæmt áætlunum. Enda var það svo.

Ég held að hv. þm. ættu að hafa sig hæga hafandi í huga hin stóru orð sem hér féllu hjá ýmsum hv. þm. stjórnarandstöðunnar á þeim dögum. Það er kannski fortíðin og menn ættu ekki að vera að rifja þau upp en fyrst hv. þm. vilja rifja það upp þá er það allt í lagi. Þeir héldu því þá fram að það tæki fjögur ár eða fimm ár að finna nýtt fyrirtæki og ráðherrar mundu þvælast um allan heim og verða sér til skammar og þar fram eftir götunum. Síðan gerist það að við erum nánast daginn eftir búin að finna fyrirtæki til að fara í þessar framkvæmdir, og það ekkert smáfyrirtæki. Það er stærsta álfyrirtæki í heimi.

Allt sem komið hefur fram í viðræðum við þetta fyrirtæki, við þá einstaklinga sem þar eru í forsvari, hefur verið á þann veg að ég treysti þeim mjög vel. Ég trúi því að af þessu verði og á næsta vori muni framkvæmdir fara á fulla ferð. Ég gleðst yfir því að við gátum byrjað í haust vegna þess að hver mánuður skiptir miklu máli. Það er ekki lítils virði upp á að geta startað sem allra fyrst álveri í Reyðarfirði.