Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:49:50 (908)

2002-11-01 11:49:50# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:49]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór mikinn í gagnrýni á persónu mína og talaði sérstaklega um 5 milljónir sem okkur voru ætlaðar frá Búnaðarbankanum. Hann talaði um að ég hefði verið verktaki Búnaðarbankans. Það er alls ekki rétt því það voru fimmmenningarnir sem gerðu tilboð í stofnfé stofnfjáreigenda.

Hins vegar voru þessar 5 milljónir samkvæmt gjaldskrá og ég vissi á þriðja degi að það stæði til. Það átti að gera baksamning um það eins og tíðkaðist, og tíðkast, hjá fjármálastofnunum, þar á meðal sparisjóðum sem ég féllst ekki á. Ég þurfti að hugsa mig um heilan dag, hvort ég ætti að taka við þessu eða ekki. Ég vissi að það yrði gagnrýnt og þar af leiðandi var ég gagnrýninn á það. Ég vildi láta féð ganga til einhverra félagsmála en það gekk ekki heldur og ég féllst því á þetta. En þetta kemur náttúrlega eingöngu til ef af samningum verður og þetta er talið eðlilegt fé fyrir þá sem sameina fyrirtæki, og heitir ,,finder's fee`` (fundarlaun) á ensku.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sáttur við það veldi sem þetta fé sem enginn á --- t.d. í Kaupþingi sem er afskaplega framsækið og hvasst fyrirtæki, vel rekið og stundar starfsemi um allan heim, þar á meðal hefur Kaupþing stundað fjandsamlega yfirtöku á sænskum banka --- er hann sáttur við það veldi sem er byggt upp í krafti valds þessa fjár sem enginn á í sparisjóðunum? Og ég vil spyrja hann líka: Er hann sáttur við kaup SPRON á Frjálsa fjárfestingarbankanum? Stjórn SPRON kaupir heilan banka á 3,8 milljarða. Er hann sáttur við það verð? Er það rétt verð o.s.frv.? Þá vil ég enn fremur spyrja hann: Er hann sáttur við hlut Meiðs í Kaupþingi? Meiður á 21% í Kaupþingi og ræður þar af leiðandi mestu þar en Kaupþing á hins vegar 44% í Meiði og ræður þar af leiðandi mestu þar, þ.e. stjórn Kaupþings er farin að kjósa sjálfa sig. Er hv. þm. sáttur við þá þróun mála að þetta fé sem enginn á sé farið að búa til svona valdapíramída sem ræður um allan heim? Ég vil benda á að starfsmenn Kaupþings eru 500 um allan heim, afskaplega vel rekið og framsækið fyrirtæki en alls ekki í takt við neina skátahugsjón.

Þá vil ég benda á að hann talar um dreifða eignaraðild. Ef hugmyndir stjórnar SPRON hefðu gengið eftir væri einn aðili núna stærsti hluthafinn í SPRON hf. Það er þetta fé sem enginn á og hann ætti 90%.