Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:13:36 (914)

2002-11-01 12:13:36# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er misminni og misskilningur vegna þess að ég sagði að yfirráðin yfir því fé sem enginn á gætu valdið spillingu og alls konar óáran ef þau kæmist í hendur óprúttinna aðila. Það er varðandi þetta fé sem enginn á og enginn hefur lagt fram, þar er hættan. Það er engin hætta á því að menn fari illa með eigið fé. Og ef þeir gera það þá tapa þeir. Það er bara svo einfalt. Ef stofnfjáreigendur gera einhverja vitleysu með stofnfé sitt þá tapa þeir bara. Það verður verðlaust. En það er hætta á ferðum þegar menn fara með annarra manna fé sem enginn á þar að auki og enginn eigandi hefur eftirlit með. Ég spyr hv. þm. enn einu sinni: Er hann sáttur við kaup SPRON á Frjálsa fjárfestingarbankanum á 3,8 milljarða, sem hann veit örugglega um?

Hv. þm. segist mjög ósáttur við núverandi stöðu. Hann kennir ríkisstjórninni um hana. En ég veit ekki betur en hv. þm. vilji negla niður þessa stöðu, hann vilji negla niður vald manna yfir fé sem enginn á. Hann vill styrkja enn frekar þetta fé sem enginn á og getur valdið spillingu ef það kemst í hendur óprúttinna aðila. Ég er ekki að segja að það sé þannig í dag.