Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:48:34 (918)

2002-11-01 12:48:34# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:48]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil deila áhyggjum með hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssyni, hvað varðar fjármálastofnanir á landsbyggðinni. Landsbyggðarfólk hefur í mörgum tilfellum orðið að horfa upp á lokun stofnana sem hafa verið þar burðarásar í fjármálastarfsemi. Í sumum tilfellum hefur verið komið í veg fyrir slíkar lokanir. Það var uggur á Kópaskeri og uggur á Raufarhöfn þegar Landsbankinn hugðist loka þar og lokanir hafa farið suður Austfirði og með suðurströndinni. Ég vil ítreka mikilvægi sparisjóðanna fyrir landsbyggðina. Það eru stofnanir sem tryggja fólki þar aðgang að fjármunum.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði um veðhæfni eigna. Það var einmitt markmið þeirrar þáltill. sem ég flutti á hinu háa Alþingi í gær að þessi mál væru skoðuð, þ.e. skoðað hvernig verja megi eignir fólks á landsbyggðinni og tryggja verðmæti þeirra. Það er hagsmunamál þess fólks sem á þær og hagsmunamál þeirra lánastofnana sem eiga veð í þeim, ekki síst Íbúðalánasjóðs.