Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:50:13 (919)

2002-11-01 12:50:13# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:50]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða fyrir mig að svara hv. þm. í löngu máli þar sem hann tók undir þær áhyggjur sem ég hef af þróun mála á landsbyggðinni, ekki síst þar sem verið er að loka fjármálastofnunum svo sem bönkum og sparisjóðum. Við það gerist það að kaupmaðurinn á horninu verður að hafa til taks lausafé til að bjarga ferðamönnum sem koma, erlendum eða innlendum, sem fær hvergi annars staðar þjónustu í að skipta peningum en hjá kaupmanninum á horninu. Starfsemi sem á að vera í bönkunum eða sparisjóðunum færist inn í verslanirnar þar sem hún á ekki að vera. Þetta er eitt af því sem maður hefur miklar áhyggjur af. Bankarnir sjá ekki einu sinni til þess að til staðar sé hraðbanki þannig að fólk geti þá tekið út fjármuni á viðkomandi stöðum. Þetta er eitt af því sem vantaði í upptalningu mína.

Ég og hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson erum þó sérstaklega sammála um að veðhæfni og verðmæti eigna á landsbyggðinni er slíkt að fólk getur nánast, þegar það ætlar að flytja, skilað lyklinum til viðkomandi stofnunar á staðnum og má teljast heppið ef það sleppur skuldlítið þaðan. Það er skelfilegt. Það var vísað til þess í umræðunni í gær að um leið og ríkið auglýsti eftir húsnæði á Ísafirði, þar sem er þó ágætisatvinnuástand, voru 25 hús boðin til sölu.