Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:02:36 (921)

2002-11-01 13:02:36# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að það á að vera komið matarhlé en mér fannst bara mikilvægt að koma því strax að að í öðru frv. sem er á leið í þingið verður fjallað um hegðunarreglur. Þetta frv. fjallar ekki um hegðunarreglur á markaðnum. Í hinu frv. er tekið mjög myndarlega á þeim þáttum og það mun birtast hér einhvern næstu daga.

Svo var það sem ég álít að hv. þingmaður hafi einnig nefnt varðandi neytendaþáttinn. Það er rétt að hér er ekki tekið á þeim þætti mála en þá vil ég geta þess að ég hef ákveðið að skipa nefnd til að undirbúa frekari stefnumörkun í sambandi við bankaþjónustu. Nefndin mun yfirfara erlenda umræðu um samningsskilmála og réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja, hugleiða íslenskar aðstæður og koma fram með sjónarmið sem nýst geta í frekari stefnumörkun. Þessi nefnd mun verða skipuð fulltrúum frá Neytendasamtökunum, viðskrn., Sambandi íslenskra sparisjóða og fleirum. Þar er reynt að loka hringnum með því að taka einnig á þeim þætti.

Í sambandi við sparisjóðina --- við förum örugglega betur í það á eftir --- finnst mér gæta ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni. Það að breyta sparisjóði í hlutafélag er orðið heimilt með lögum. Við það verður til ákveðin sjálfseignarstofnun, þ.e. það fjármagn sem ekki er stofnfé, og einhver þarf að stjórna henni. Hver er bestur til þess? Jæja, við skulum segja að það séu stofnfjáreigendurnir, þeir hafa a.m.k. lagt eitthvert fé inn í sparisjóðinn. Þannig eru lögin. Það er hægt að selja út og þá fer það fjármagn til líknarstarfsemi eða menningarstarfsemi. Mér finnst einhvers misskilnings gæta þarna en ég veit að það er ekki tími til að fara náið út í það núna.