Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:55:17 (926)

2002-11-01 13:55:17# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki verið alveg sammála hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar að lýðræðið sé afskaplega hentugt form og það er það stjórnarfyrirkomulag sem við búum við hér. Hin harða hönd eigandans lætur þá sem hún trúir fyrir fjármunum sínum, þ.e. alþingismenn, aldeilis vita af sér þegar kemur að kosningum. Þetta er bara það sem við köllum fulltrúalýðræði þar sem þingmönnum og embættismönnum er trúað fyrir þessum ákveðnu fjármunum. Við setjum okkur pólitísk markmið um það hvernig við viljum verja þeim. Nákvæmlega það sama tel ég að gerist hjá sparisjóðunum. Þeir starfa eftir ákveðnum markmiðum sem stofnfjáreigendur settu sér, sem þeir skrifa undir þegar þeir kaupa stofnfjárhlut í sparisjóðunum, þ.e. að tryggja þessum stofnfjáreigendum tiltekinn arð, hugsanlega ekki hámarksarð, en það er bara nokkuð þokkalegur arður sem sparisjóðaeigendur hafa fengið. Sá hagnaður sem verður til er notaður í þágu samfélagsins enda eru sparisjóðir víðast hvar um land ötulastir til að veita hagnaðinn til þeirra íbúa sem búa á starfssvæði sparisjóðanna. Og það tel ég vera afskaplega göfugt. Spurningin snýr kannski að einhverju leyti að því hvort megi, að mati hv. þingmannsins, verja fjármununum í þessum samfélagslega tilgangi, sem ég tel afskaplega göfugan og mikilsverðan og hefur gagnast mörgum starfssvæðum sparisjóðanna afskaplega vel, eða hvort einungis eigi að horfa á mjög hart gróðasjónarmið einstaklinga. Þar er líklega ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns.