Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:01:21 (929)

2002-11-01 14:01:21# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segist standa vörð um hag stofnfjáreigenda. Ef stjórn SPRON hefði náð fram markmiðum sínum um að breyta honum í hlutafélag 28. júní þá ættu stofnfjáreigendur núna hlutabréf í SPRON hf. sem er 10% af öllu hlutafénu. Heldur hv. þm. að einhver hefði viljað kaupa þau hlutabréf í dag vitandi að einn aðili ræður 90%? Ekki nokkur einasti maður. Stofnfjáreigendur fengu fyrir breytinguna allan arð sparisjóðsins en eftir breytinguna einungis 10% af arðinum. Síðan segist hv. þm. vera að gæta hagsmuna stofnfjáreigenda. Það er ekki rétt.

Ég vil líka nefna það að stofnfjáreigendur hafa tapað sínu fé. Hefur einhver risið upp og sagt að það þurfi að bæta þeim úr ríkissjóði? Menn töpuðu fé hjá Sparisjóði sennilega Sauðárkróks, en nokkrir sparisjóðir hafa farið á hausinn þar sem menn hafa tapað. Hefur einhver lagt til að það yrði bætt? Hefur einhver lagt til að stofnfé yrði verðbætt frá upphafi, í hundrað ár? Ekki er mér kunnugt um það.

Það að enginn geti gert rétt er ekki satt. Ég hef þá trú að 80% af fólki sé strangheiðarlegt og það er reynsla mín að hægt sé að treysta 80% af fólki mjög vel, 10% í viðbót svona nokkurn veginn, 5% í viðbót ekkert voðalega vel og 5% eru kannski bara skúrkar. En þegar þeir komast til valda í svona kerfi, skúrkarnir --- og þeir sækja í það eins og býflugur í hunang --- þegar þeir komast til valda þá gerist eitthvað. Þess vegna hef ég alltaf undirstrikað að ég er ekki að segja um þá menn sem núna stjórna að eitthvað misjafnt sé um þá að segja, alls ekki. Ég hef aldrei sagt það. En hættan er til staðar í því fé sem enginn á.