Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:04:50 (931)

2002-11-01 14:04:50# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki viljað auka hlut ríkisins, ekki eins og hv. þm. Ég hef viljað lækka skatta og barist fyrir því. Ég vil minnka umsvif ríkisins og mér þykir sárt að vita til þess hvað Landsvirkjun, sem er opinbert fyrirtæki, fjárfestir mikið. Ég vil selja Landsvirkjun. (ÖJ: En þú skrifar upp á óútfylltan tékka.) Vissulega geri ég það vegna þess að ég þarf að vega og meta þá hagsmuni sem um er að ræða og ég met það meira að (Gripið fram í.) þjóðin njóti góðs af þeim fallvötnum sem hér renna. Ég met það meira sem stoð undir atvinnulífið á Íslandi og velferð að við nýtum þær auðlindir sem við eigum.

Hins vegar mundi ég vilja breyta Landsvirkjun í hlutafélag og selja hana vegna þess að ég er ekki hlynntur því að ríkið sé að standa í þessum geysilegu framkvæmdum. Og sem betur fer miðar núna örlítið í þá veru. Það er búið væntanlega að selja Landsbankann. Búnaðarbankinn er næstur. Ég vona að við seljum Landssímann fljótlega og ég vona líka að við getum selt Landsvirkjun fyrr en seinna. Þá erum við loksins að mestu leyti komin út úr þessum ríkisrekstri þar sem ríkið er allt of viðamikið og þar hefur myndast allt of mikið fé sem enginn á.

Auk þess legg ég til og hef lagt til mörgum sinnum að kveðið sé á um að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðina og að þeir kjósi stjórn beinni kosningu þannig að þeir hafi eitthvað um það að segja hvernig þeim miklu fjármunum er varið sem er ætlað til að standa undir lífeyri þeirra í ellinni.