Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:15:30 (937)

2002-11-01 14:15:30# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú er verið að ræða frv. til laga um fjármálafyrirtæki sem lagt er fyrir þetta 128. löggjafarþing. Það er náttúrlega í mörgum köflum, enda mikið efni. Þar er mikið komið inn á fjármálaeftirlit og hvaða reglur eigi að gilda á milli fjármálastofnana í landinu.

Það er mjög eðlilegt að frv. komi fram vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað undanfarin ár á fjármálamarkaðnum í sambandi við eignarhaldið og annað og frv. tengist líka nánast verðbréfaviðskiptum.

Umræðan hefur núna m.a. snúist um siðferði við sölu á hlutabréfum og þegar fjármálafyrirtæki gefa viðskiptavinum sínum ráð. Í fréttum undanfarið höfum við einmitt heyrt af fólki sem hefur farið til banka og fjármálastofnana í því skyni að fá leiðbeiningar um hvernig það geti varið fé sínu best og síðan hefur þessu fólki verið ráðlagt að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, t.d. deCODE, með þeim afleiðingum að það hefur tapað milljónum og sumir jafnvel eigum sínum, af því þeir voru svo einlægir í trú sinni og trausti á viðkomandi stofnun að þetta mundi allt ganga upp.

Það vekur svo spurningar um hvort fólkið sem gaf ráðin hafi verið í stakk búið til þess. Annaðhvort orsakaði það tjónið eða þá að einhver önnur sjónarmið réðu ferðinni þegar verið var að gefa fólki ráðin.

Ef t.d. banki hefur keypt mikið af hlutabréfum í einhverju fyrirtæki sem fer síðan að tapa peningum, þ.e. bréfin lækka í verði, ef bankinn kaupir hlutabréf sem lækka í verði og hann lendir í vandræðum og hneigist til að selja viðskiptavinum sínum bréfin þá er náttúrlega um háalvarlegt mál að ræða. Þetta hlýtur að koma inn í alla þessa umræðu sem nú er í gangi um fjármálafyrirtæki, því bankarnir tilheyra þeim líka.

Í fréttunum var viðtal við einn starfsmann Fjármálaeftirlitsins og hann talaði einmitt um innherjaviðskipti líka og sagði að þau væru orðin mjög alvarleg. Hann benti á, eftir því sem ég skildi hans tal best, að það þyrfti skýrari, skarpari og betri reglur um þessi mál. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan þá getur þetta verið þannig að A eigi í B og B eigi í C og C eigi í A. En samt er þetta látið líta út sem sjálfstæðar og óháðar fjármálastofnanir. Auðvitað þurfa reglurnar að vera skýrar og augljósar.

Ég held að menn muni fjalla lengi um þetta frv. eða muni þurfa nokkuð mikinn tíma til þess að skoða þetta allt saman vel því það koma svo mörg sjónarmið fram eins og við höfum bara heyrt núna.

Herra forseti. Í sambandi við sparisjóðina þá er ljóst að í mörgum tilvikum var stofnað til þeirra hreinlega vegna byggðasjónarmiða. Það voru menn í byggðunum sem hvöttu til þess að þeir yrðu stofnaðir og lögðu stofnfé í þessa sjóði. Þetta var gert með það að augnamiði að þeir sem byggju á svæðinu og í byggðunum gætu haft bankastofnun hjá sér svo þeir gætu verið með einhver smá peningaviðskipti og það væru ekki bara viðskipti með smjör, fisk, álnavöru eða eitthvað slíkt. En síðan hefur starfsemin þróast. Starfsemin hefur þróast og þetta eru orðin stór fyrirtæki í dag sem velta hundruðum eða jafnvel þúsundum milljóna. Og svo veit enginn hver á féð. Það er talað um fé án hirðis, þó ég vilji ekki halda því fram að það sé alveg rétt að nota svoleiðis hugtök. Þau minna á annað sem nú helgara en þetta.

Ástæða er til að benda á, herra forseti, umræðuna um sparisjóðina. Það sem gerðist varðandi þá í sumar sem leið var náttúrlega kapphlaup um peninga. Aðilar voru að reyna að komast yfir það fé sem er í þessum sparisjóði. Fólk var að reyna að komast yfir þetta fé og vildi ráða yfir því. Ég held nú að það hafi ekki endilega verið góði hirðirinn eða sú hugsun sem hafi ráðið ferðinni þegar verið var að tala um þetta. Þarna eru gífurlega miklir fjármunir og spurningin er: Hvar eiga þeir að lenda? Og hver á þetta? Sagt er að enginn eigi þetta. En hvert var markmið sparsjóðanna og hver var hugsjónin með stofnun þeirra? Kannski er hægt að rekja þetta til baka þannig. Væri þá rétt að dreifa þeim fjármunum sem Sparisjóður Reykjavíkur á meðal allra íbúa Reykjavíkur? Það er alveg jafngóð hugmynd og að dreifa öllu fé sparisjóðanna á Vestfjörðum, ef þeir verða aflagðir, bara á milli íbúa Vestfjarða. Er það nokkuð óeðlilegra en allt hitt sem hefur komið í umræðuna?

Síðan þegar verið er að ræða líknarmálin og menningarstarfsemi og annað sem fjármunirnir eiga að fara í þar sem um ábata hefur verið að ræða þá er líka kominn tími til að skilgreina hvað sé líknarstarfsemi og menningarstarfsemi. Lengi má deila um þetta allt saman. En auðvitað þarf það að vera skýrt hvernig fara eigi með þessa fjármuni.

Ef það eru einhver vandræði með hvað eigi að gera við peningana sem SPRON á þá er náttúrlega auðveldast að dreifa þeim á meðal íbúa Reykjavíkur --- hið sama hlýtur þá náttúrlega að gilda um aðra sparisjóði --- en láta þá sem eru búnir að leggja peninga úr eigin vasa í hann fá sitt fyrst. Þá held ég að allt væri í lagi. En það eru ekkert allir sammála þessu af því þeir hugsa sér eitthvað með þetta. Þeir ætla sér að fá eitthvað út úr þessu jafnvel án þess að hafa nokkuð lagt til þess.

Gott var að heyra það áðan hjá hæstv. ráðherra að í smíðum sé frv. um hegðunarreglur, þá væntanlega í viðskiptalífinu hér á landi. Ég vona að þær komi. Ég hitti mann í morgun sem er í forsvari fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki hans skuldar töluverðar fjárhæðir og er að greiða núna af nokkrum milljónum 20% vexti. Ég spyr bara: Hvað er eiginlega í gangi hér í landinu þar sem allt á að vera svo stöðugt og stabílt, þar sem krónan á að vera sterk og fín og allt er svo gott og fínt í sambandi við efnahagsstjórnina og bankakerfið? En samt er hægt að taka svona háa vexti. Mér finnst þetta vera alveg óheyrilega háar upphæðir, 20% vextir. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli vera til. Ég tala nú ekki um þegar menn geta ekki einu sinni afnumið verðbæturnar af því þeir treysta því ekki að efnahagskerfið eða að efnahagslífið sé nógu sterkt eða stjórnin á fjármálunum. Til öryggis verðum við að hafa verðbætur því ef allt fer í hund og kött og við missum tökin á efnahagslífinu þá höfum við þær til öryggis. Traustið er ekki meira þrátt fyrir að lítil verðbólga hafi verið undanfarin ár. Undan þessu hefur fólk verið að kvarta og kveina og séð hvernig verðbótaþátturinn á ákveðnum tímabilum hefur hleypt lánunum alveg óheyrilega hátt upp, ekki í neinu samræmi við raunverulegt verðgildi þessara peninga. Ég held því fram.

En ég tek það fram aftur og spyr hvort það gæti verið í leiðbeinandi reglum fyrir fjármálafyrirtæki hversu háa vexti þau megi taka eða leggja á. Hvað er eðlilegt að vextir séu háir? Er eðlilegt að miða við þau lönd sem fjármálafyrirtækin á Íslandi hafa viðskipti við, t.d. Japan? Bankafyrirtæki og bankastofnanir hér eru að fá lán í Japan sem dæmi eða í öðrum löndum og lána svo hérna út. Það er gífurlega mikill vaxtamunur á þessu. Ég hef heyrt að vextir í Japan séu jafnvel niður í 1%. Síðan eru menn kannski að taka þetta að láni og borga til baka með góðu móti vegna þess að þeir taka svo háa vexti af þeim sem þeir lána.

Svo vakna náttúrlega spurningar um hversu mikil samkeppni sé á þessum markaði. Er í raun og veru einhver samkeppni á bankamarkaðnum? Finnur almenningur einhvern mun á því að fá lán í einum banka fremur en öðrum hér? Þetta er allt mjög svipað og öll þjónustugjöldin og taxtarnir sem eru í gangi. Þetta er vandamálið í landinu.

Þessi ágæti maður hjá Fjármálaeftirlitinu talaði líka um það að bankarnir þyrftu að stórauka það að leggja inn á afskriftareikninga sína. En það var talað um það fyrir ári síðan að fjárnám og vanskil ykjust og enn er verið að tala um það. Hvernig stendur á þessu? Er ekki ein skýringin sú hvað vextirnir eru gífurlega háir í þessu landi og hvað fjármagnskostnaðurinn er mikill og hvað það er erfitt að komast í það sem hv. þm. Gísli Einarsson nefndi hér áðan þolinmótt fjármagn?

Þetta vekur líka hugrenningatengsl til þáltill. sem hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson lagði fram í gær um að kanna rýrnun eigna á landsbyggðinni. Þetta tengist veðhæfinu og hvernig sjónarmiðin til allra eigna eru orðin ólík. Það er ekki hægt að taka veð í eign úti á landi. En ef hún er hér á þessu svæði þá er það hægt jafnvel þó atvinnustarfsemin sem fer fram í eign á landsbyggðinni sé miklu arðbærari en sú sem fer fram í eign hér fyrir sunnan. Þá er fólk farið að hafa meiri trú á steypu en á starfsemi.

Það vantar líka mikið inn í bankakerfið hér, herra forseti, að treyst sé á starfsemina sem er í fyrirtækjunum og horft á möguleikana sem starfsemin gefur af sér, en ekki hvað húsið muni kosta sem starfsemin á að vera í. Til þessa þarf meira að líta tel ég. Sérstaklega lýtur þetta að byggðamálum. Hvað er fólkið að fara að gera? Um hvað á vinna þessa fólks að snúast? Skilar hún einhverjum hagnaði? Það á ekki að segja: ,,Ja, við getum nú ekki farið að lána þessu fólki. Það hefur engin veð.`` Það þarf að spekúlera í því hvað fólkið ætlar að gera og styðja það og styrkja og efla það alveg eins og gert er víða um heim þar sem menn vilja sjá nýsköpun í atvinnulífi.

Herra forseti. Að lokum langar mig að þakka hæstv. ráðherra fyrir að beita sér fyrir því að fram komi hegðunarreglur í viðskiptalífinu hérna. Fréttir sem við höfum heyrt undanfarið eru náttúrlega með ólíkindum og dramað í kringum Íslenska erfðagreiningu sem byrjaði náttúrlega með pomp og prakt í Perlunni á sínum tíma.