Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:30:28 (938)

2002-11-01 14:30:28# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið ágæt og málefnaleg. Eins og búast mátti við var sparisjóðakaflinn nokkuð mikið til umfjöllunar. Það sem þar kom fram var m.a. það hvort hægt væri og hvort ekki væri rétt að lögleiða að ekki væri hægt að selja stofnbréf á yfirverði.

Ég fór yfir það áður í umræðunni að samkvæmt lögfræðiáliti er a.m.k. vafi á því að það standist eignarákvæði stjórnarskrárinnar. Þess vegna er sú leið ekki farin, heldur önnur leið sem kveður á um dreifða eignaraðild og fleiri þætti sem gera það erfitt að standa fyrir eða fara í yfirtöku eins og þá sem átti sér stað í sumar. Ég tel þá leið hafa verið þá einu réttu miðað við þær aðstæður.

Gagnrýnt hefur verið að ég skuli ekki hafa haft afskipti af málinu í sumar, bein afskipti, þegar málið var mest í umræðunni, að ég hefði getað beitt mér og stoppað Búnaðarbankann af sem er að hálfu leyti til í eigu ríkisins og ég fer með þá eign sem viðskrh. Þess ber að geta að ég fer með það vald sem eigandi á hluthafafundi, skipa bankaráð og síðan fer bankaráðið með stjórn bankans á milli funda. Við þær aðstæður var að mínu mati ekki rétt að kalla saman hluthafafund. Engu að síður gerðist það ekki, og auðvitað hafði maður ekki trú á því, að það tilboð sem borist hafði mundi ganga upp og sú varð raunin. Ég tel því að þetta hafi, ef þannig mætti að orði komast, sloppið fyrir horn. Auk þess má geta þess að ég hafði fengið gagnrýni fyrr af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrir óþarfa afskipti af rekstri banka. Það er því ekki alltaf alveg fullt samræmi í athugasemdum hv. þingmanna.

Hvort sparisjóðirnir eru í hættu eins og hér var haldið fram, þá tel ég að miðað við að frv. verði að lögum sé staða þeirra miklu betri. Málið er að ég hef haldið því fram og fullyrt að sá skilningur sem lagður var í lögin af hálfu fimmmenninganna í sumar hafi ekki verið skilningur Alþingis og vilji Alþingis að slíkt gæti átt sér stað. Það held ég að sé alveg hægt að fullyrða miðað við að hafa farið í gegnum umræðuna. En hins vegar er ákvæði í sparisjóðslögum alveg frá 1985 sem varðar stofnbréfin og skilningurinn hafði verið sá að þau skyldu ekki seld á yfirverði og að yfirtökur sem þessar, með því að leppa m.a. eigendur, stofnfjáreigendur, gætu ekki gengið upp samkvæmt lögum.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um að verið sé að selja yfirráð yfir fé í gegnum sjálfseignarstofnanir. Við skiljum þetta ekki eins. Ég vil að sá möguleiki sé fyrir hendi að hægt sé að breyta sparisjóðum í hlutafélög og þá verður það fé sem ekki er hlutafé, þ.e. fyrrverandi stofnfé, sett inn í sjálfseignarstofnun og yfir þeirri sjálfseignarstofnun ráða stofnfjáreigendur. Þannig er þetta samkvæmt lögum í dag og verður áfram miðað við frv.

Síðan er reiknað með að eitthvað verði selt út úr sjálfseignarstofnuninni og þannig komi nýir eigendur að sparisjóðnum og það finnst mér ekkert nema eðlilegt og gott. Það er a.m.k. hægt að halda því fram að þá sé minna af eigendalausu fé, ef það er vandamálið. Og fjármagninu sem fæst við söluna er varið á sérstakan hátt til menningar- eða líknarmála. Þannig tel ég þetta vera mikilvægt mál og hugsunin er ákaflega fögur a.m.k., enda á hún sér langa sögu.

Gagnrýnt var að ekki skyldi vera tekið á vátryggingafélögum í frv. Um það er að segja að í undirbúningi er í ráðuneytinu frv. um vátryggingasamninga og er nokkuð langt á veg komið. Það frv. er fyrst og fremst strúktúrfrumvarp, ef svo má að orði komast, og byggir verulega á EES-reglum.

Eins og kom fram áðan er á leiðinni inn í þingið annað frv. um hegðunarreglur í sambandi við verðbréfaviðskipti og fleira. Þar með er ekki sagt að það séu allt saman nýjar reglur því að í rauninni höfum við á síðustu árum verið að móta okkur lagareglur á því sviði og þarna er fyrst og fremst hnykkt á þeim reglum sem þegar eru mótaðar og síðast í fyrra var skerpt mjög á ákvæðinu hvað varðar innherjaviðskipti. Frumvarpið er engu að síður mjög mikilvægt og náðist sátt um það í þeirri nefnd sem vann að frv. með markaðnum. Ég trúi að því verði vel tekið þegar það kemur inn í þingið.

Talað var um að áhættufé og þolinmótt fé vantaði inn í atvinnulífið. Alveg er hægt að taka undir það. En hér erum við ekki að fjalla um slíkt mál vegna þess að hér erum við fyrst og fremst að tala um fjármálafyrirtæki, ekki fjárfestingarsjóði eða annað slíkt. En það sem við þó höfum af slíkum sjóðum eru t.d. Nýsköpunarsjóður og Byggðasjóður, en sjálfsagt eru þeir allt of fáir miðað við það að þörfin er heilmikil. Það má nefna milljarðinn sem varið verður til nýsköpunar á næstu fjórum árum á landsbyggðinni sem vonandi kemur að góðu gagni. Þá er lítill sjóður sem heitir Átak til atvinnusköpunar og útdeilir nokkrum milljónatugum á ári hverju til einmitt hugmynda sem þurfa aðstoð til þess að verða að alvöruatvinnutækifærum. En þarna er mikil þörf og er alveg eðlilegt að það sé nefnt í tengslum við frv. þó það kannski taki ekki beint á því.

Um atriðið sem kemur fram í sparisjóðakaflanum að þar sé stefnt að dreifðri eignaraðild og enginn megi fara með meira en 5% af hlutafé. Það er í sjálfu sér ósköp eðlilegt að hv. þingmenn nefni það að einkennilegt sé að þetta skuli vera hægt miðað við að ekki sé hægt að setja í lög ákvæði þess efnis að dreifð eignaraðild skuli vera að bönkum. En þetta er ekki eitt og hið sama. Þetta er eins og að bera saman epli og appelsínur því að miðað við Evrópusambandslöggjöfina þá hefur ekki verið gerð athugasemd við það að þessi ákvæði séu í lögum um sparisjóði og það er miklu víðar en hér á Íslandi. Hins vegar hefur verið gerð athugasemd við það að Norðmenn hafa verið með takmarkanir í sambandi við eignarhluta í bönkum. Og þeir eru tilbúnir með frv. eftir því sem mér skilst til að breyta því ákvæði, vegna þess að þeir vilja ekki lenda með það fyrir dómstólum. Þetta er ekki það sama. Sparisjóðir eru yfirleitt staðbundin fyrirtæki sem eru í mjög nánum tengslum við viðskiptavini sína og byggja á öðrum forsendum en bankar.

Talað var um að Fjármálaeftirlitið væri einhvers konar æðsta ráð. Það má segja að það hafi heilmikið hlutverk og miklu hlutverki að gegna. Ég held að ekki sé vanþörf á því að sterkt fjármálaeftirlit sé starfandi.

Opnuð er ný kæruleið með frv. sem ekki hefur verið til staðar þar sem Fjármálaeftirlitið mun sjá um leyfisveitingar og leyfissviptingar og þá er það kæranlegt til ráðherra.

Úrskurðarnefnd er starfandi þannig að ekki er hægt að gagnrýna það að mínu mati, það er a.m.k. síður hægt að gagnrýna það, en er þó ekki hafið yfir gagnrýni að sjálfsögðu. Á bls. 93 í frv., í greinargerðinni, eru skýr ákvæði um það sem varðar þá heimild sem kemur fram í frv. að Fjármálaeftirlitið hafi vald til þess að kveða á um aukið eigið fé fjármálastofnana, sem sagt umfram þau 8% sem verið hefur í lögum. Þetta er m.a. gert vegna ábendinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta verða allt saman mjög gegnsæjar reglur og ég held að það skipti miklu máli. Það er ekki eins og að gripið verði handahófskennt til ákvarðana af þessum toga.

Síðan hefur verið talað um verðbréfamarkaðinn almennt og þá hluti sem þar hafa verið að gerast á síðustu mánuðum, sem er svo sem ekki allt fagurt, en við verðum að hafa það í huga að hér var mikill blómatími. Menn höfðu mikla oftrú á verðbréfamarkaðnum á árunum 1998--2000 og því er ekki að neita að eftirköst eru eftir það tímabil og mörg mjög dapurleg. Verðbréfamarkaðurinn þarf að vinna sér traust á nýjan leik, það skiptir mjög miklu máli og ég vona svo sannarlega að það gerist. En þegar um það er að ræða að fólk hefur fengið ráðgjöf af hálfu fjármálafyrirtækja sem hefur leitt það í ógöngur, þá eru það ákvæði sem í einhverjum tilfellum hljóta að varða við lög og þá verður tekið á því með þeim hætti sem lög kveða á um ef það gengur svo langt. Það er ekki bara á Íslandi sem verðbréfamarkaðurinn hefur verið á niðurleið eða átt erfitt, það hefur verið miklu víðar og mikil umræða fer fram m.a. í Bandaríkjunum um þetta efni.

Síðan var umræða um vexti sem m.a. síðasti ræðumaður kom inn á. Það er allt alveg rétt, að vextir eru háir en hins vegar er það ekki málefni frv. að taka á því. Þetta frv. er fyrst og fremst um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja. En við vitum það vel, af því hv. þm. vitnaði í Japan, að erfitt er að bera saman íslenska hagkerfið og það japanska. Og í rauninni verðum við að reikna með því að vextir á Íslandi séu hærri en almennt gerist, bara vegna þess hversu hagkerfið er smátt í sniðum. Þetta er bara hluti af því að vera smátt þjóðfélag --- ég vildi ekki segja smáþjóð, það er svona síðra --- og vera með lítið hagkerfi.

Um verðtryggingu er það að segja að það er pólitísk ákvörðun í sjálfu sér hvort hún er eða er ekki. Við höfum tekið þá umræðu og niðurstaðan hefur verið sú að falla ekki frá verðtryggingarákvæðum. Á það má benda að almennt hafa verðtryggð lán borið lægri vexti en lán án verðtryggingar. Það er því ekkert endilega hægt að kenna verðtryggingunni um það að fjármagnskostnaður er mikill á Íslandi.

Samkeppni á bankamarkaði er ekki mikil. Ég minni á að ekki var farið í þá aðgerð sem hefði á ýmsan hátt verið áhugaverð og þá er ég að meina að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka á sínum tíma og það var vegna þess að samkeppnisyfirvöld töldu að með því mundi skapast fákeppni á markaðnum og því var ákveðið af hálfu ríkisstjórnar að sjálfsögðu að gera það ekki.

Tími minn er útrunninn. Ég held að ég hafi komið inn á flest atriði. Ég kom að vísu ekki mikið inn á þau atriði sem hv. þm. Pétur Blöndal kom með í umræðuna. Við höfum nú eiginlega tekist svolítið á um þau áður, þannig að ég veit ekki hvort við bætum okkur mikið. Við erum ósammála hvað þetta varðar og komum sennilega til með að vera það.